Tveir Borgnesingar fengu fálkaorðuna á nýársdag

janúar 9, 2023
Featured image for “Tveir Borgnesingar fengu fálkaorðuna á nýársdag”

Guðni Th Jóhannesson forseti Íslands afhenti 14 manns fálkaorðuna á Bessastöðum á nýársdag líkt og venja er. Að þessu sinni voru tveir Borgnesingar í hópnum, þau Anna Sigríður Þorvaldsdóttir og Héðinn Unnsteinsson.

Anna Sigríður fékk riddarakross fyrir framlag til tónlistar á íslenskum og alþjóðlegum vettvangi. Anna Sigríður hefur vakið verskuldaða athygli á Íslandi og víða um heim. Hún hefur unnið til fjölmargra verðlauna og viðurkenninga á sínu ferli og var á lista Guardian yfir hápunkta klassískrar tónlistar árið 2022. Verk hennar eru eða hafa verið leikin af öllum helstu hljómsveitum í heiminum og vert er að taka fram að hún mun taka þátt í tónleikaferðlagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands í apríl sem mun leika verk hennar um allt Bretland.

Héðinn fékk riddarakross fyrir störf í þágu geðheilbrigðismála. Hann er stefnumótunarsérfræðingur og starfar í forsætisráðuneytinu sem slíkur ásamt því að kenna og gegnir einnig stöðu formanns Geðhjálpar. Héðinn hefur lagt mikið af mörkum til samfélagsins síðustu árin til að auka skilning á geðsjúkdómum og á mikilvægi geðheilsu og geðræktar. Héðinn upplifði geðraskanir á yngri árum og hefur miðlað sögu sinni með þjóðinni, til dæmis í gegnum bók sína Vertu úlfur og samnefnda leiksýningu sem var valin sýning ársins árið 2021 og hlaut sex önnur Grímuverðlaun

Borgarbyggð óskar Önnu Sigríði og Héðni innilega til hamingju með þessa frábæru viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf og árangur í þágu samfélagsins.

 

 

 

 

 

 

Mynd: www.ruv.is


Share: