Fimmtudaginn 7. september næstkomandi verða 50 ár liðin frá stofnun Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Tónlistarfélag Borgarfjarðar hafði forgöngu að stofnun skólans.
Haldið verður upp á daginn með opnu húsi á sjálfan afmælisdaginn. Skólinn mun bjóða upp á hádegissnarl í skólanum, Borgarbraut 23, Borgarnesi, kl. 12:00. Einnig er gestum velkomið að fylgjast með kennslu allan daginn. Dagskrá afmælisdagsins endar á tónleikum í Borgarneskirkju kl. 20:00. Á tónleikunum kemur fram tónlistarfólk sem útskrifast hefur frá skólanum gegnum árin.
Allir eru velkomnir og vonast aðstandendur skólans til að sem flestir sjái sér fært að líta við og koma á tónleika.
Afmælishátíðarhöld munu svo halda áfram í vetur og verður skólinn með ýmsar uppákomur, í nóvember verður söngleikurinn Móglí sýndur í Hjálmakletti og eftir áramótin verða m.a. kennaratónleikar. Þannig að það er margt að hlakka til.