Tónlistanám í Borgarbyggð

júlí 17, 2007
Tónlistaskóli Borgarfjarðar fagnar 40 ára afmæli sínu nú í haust. Í fréttabréfi skólans, sem borið verður í hús í byrjun ágúst, er að finna allar upplýsingar um skráningu, kennara, á hvaða hljóðfæri verður kennt, kennslustaði og fleira. Vefur Borgarbyggðar “þjófstartar” og birtir þessar upplýsingar hér og nú.
 
Tónlistarskóli Borgarfjarðar tók til starfa haustið 1967. Fyrsta veturinn sem skólinn starfaði stunduðu 39 nemendur nám við skólann og voru kennarar 4, auk skólastjóra. Nemendum hefur fjölgað jafnt og þétt og hafa verið um og yfir 240 nemendur síðustu ár. Tólf kennarar starfa við skólann.
 
Rekstrarfyrirkomulagi skólans hefur verið breytt í kjölfar sameininga sveitarfélaga og nú stendur Borgarbyggð alfarið að rekstrinum.
Starf skólans hefur verið fjölbreytt í gegnum árin. Auk hefðbundinna tónleika og tónfunda skólans koma nemendur fram við ýmis tækifæri, heimsækja aðra skóla og taka á móti gestum. Óhætt er að segja að starf tónlistarskólans sé mikil lyftistöng fyrir menningarlífið í héraðinu.
 
Skólastjóri Tónlistaskólans er Theodóra Þorsteinsdóttir.

 

Share: