Undanfarið hafa staðið yfir æfingar á nýjum söng- og gleðileik eftir þá félaga Bjartmar Hannesson bónda og söngvaskáld á Norðurreykjum í Hálsasveit og Hafstein Þórisson bónda og tónlistarkennara á Brennistöðum í Flókadal. Frumsýnt verður í Logalandi í Reykholtsdal föstudaginn 27. mars næstkomandi og hefst sýningin kl. 21.00. Nafn söngleiksins er Töðugjaldaballið en undirheitið: Sendu mér SMS. Sögusviðið er félagsheimili úti á landi. Þar stendur yfir töðugjaldaball með hinum síunga sveiflukóngi og kaupfélagsmanni að norðan. Á töðugjaldaballinu bregður fyrir ýmsu mektarfólki úr sveitinni svo sem hinum fulla hestamanni Sveinbirni G. Hjaltalín, vergjarna kvenfélagsformanninum Jófríði, Guðmundi húsverði sem man tímana tvenna úr félagsheimilabransanum og ýmsum öðrum kynlegum kvistum. Ekki má gleyma steratröllinu Ísleifi Jónsen dyraverði, frænda Árna nokkurs að sunnan.
Fjögurra manna hljómsveit sér um undirleik og hópur dansara kemur einnig fram í sýningunni en í henni koma hátt í 30 manns fram. Leikstjórn er í höndum Steinunnar Garðarsdóttur og Jóns Péturssonar.
Frumsýnt verður í Logalandi í Reykholtsdal föstudaginn 27. mars næstkomandi og hefst sýningin kl. 21.00. Næstu sýningar verða sunnudaginn 29. mars, þriðjudaginn 31. mars, fmmtudaginn 2. apríl og föstudaginn 3. apríl. Miðapantanir í símum 691 1182 og 693 4832.