Borgarbyggð tók í gagnið nýja viðbót í kortasjánni á föstudaginn sl. sem heitir tímaflakk. Með tímaflakkinu gefst íbúum og öðrum áhugasömum tækifæri til að bera saman loftmyndir frá mismunandi tímum og skoða hvernig landslagið og byggð hefur þróast í gegnum árin.
Til þess að skoða tímaflakkið þarf að fara inn á kortasjána og ýta á nýjasta hnappinn á valmyndinni.
Þegar ýtt er á þennan hnapp skiptist kortið í tvennt með lóðréttri línu í miðjunni sem hægt er að draga fram og til baka. Elsta loftmyndin birtist vinstra megin og yngsta hægra megin á skjánum. Til að velja önnur ár er hakað við listann efst á skipti-línunni.
Elstu myndirnar sem eru í boði eru merktar eldri og eru svarthvítar myndir af þéttbýlisstöðum frá 1953-1970.
Borgarbyggð hvetur íbúa til þess að gleyma sér í þessu skemmtilega tímaflakki og sjá breytingarnar sem hafa orðið á milli ára og áratuga.