Tillögur að frumhönnun á svæðinu frá Skallagrímsgarði að Brákarsundi sýna hvernig þróa mætti gamla bæjarhlutann í Borgarnesi með torgum og almenningsrýmum. Tillögurnar, sem unnar voru af þverfaglegu teymi arkitekta, skipulagsfræðinga, sagnfræðinga og ráðgjafa í umhverfissálfræði á vegum Alternance, voru nýverið kynntar fyrir sveitarstjórn og eru nú opnar almenningi á heimasíðu verkefnisins www.sogutorgin.is Þær sýna hugmyndir sérfræðinga Alternance sem byggðar eru á rannsóknum og íbúasamráði. Á síðunni má t.a.m. skoða kort, þrívíddarmyndir og myndband með dæmi um útfærslu.
Framundan eru stór verkefni á sviði skipulagsmála í Borgarnesi. Endurskoðun aðalskipulags Borgarbyggðar stendur yfir og framundan er vinna við nýtt deiliskipulag fyrir hluta þess svæðis sem tillögur Alternance ná til. Eins og segir í bókun byggðarráðs 1. febrúar sl. þá munu tillögurnar nýtast vel sem innlegg í þá vinnu.
Verkefnið Sögutorgin er sprottið af rannsóknarvinnu á skipulagi og sögu byggðar og mannlífs í Borgarnesi og viðamiklu samráði við íbúa. Haldnir voru íbúafundir og fundir í smærri samráðshópum ásamt því sem rætt var við eldri borgara, framkvæmd netkönnun og haldin sýning á verkefninu í Tónlistarskólanum í sumar, svo eittvað sé nefnt.
Samstarf Alternance og Borgarbyggðar um Sögutorgin kemur í framhaldi af rannsókn Alternance á tækifærum til eflingar almenningsrýma í Borgarnesi. Sú vinna hófst 2021 og var studd af SMOTIES-verkefni Evrópusambandsins sem snýst um að glæða almenningsrými nýju lífi í samstarfi við íbúa. Afrakstur þeirrar rannsóknar var kynntur í árslok 2022 og vorið 2023 sömdu Borgarbyggð og Alternance um áframhaldandi vinnu að tillögum að frumhönnun almenningsrýma í gamla bæ Borgarness, í samráði við almenning.
Fljótlega fékk verkefnið heitið Sögutorgin sem á vel við. Það snýst um að skapa aðlaðandi almenningsrými á söguslóðum Borgarness, Egilssögu og Íslendingasagna. Almenningur getur kynnt sér afrakstur þessarar vinnu á www.sogutorgin.is og tillögur sérfræðinga Alternance um frumhönnun á svæðinu.
„Svæðið frá Skallagrímsgarði að Brákarsundi á sér langa sögu og bjarta framtíð. Tillögurnar undirstrika að í gamla bæ Borgarness höfum við mikil tækifæri til að láta ríka sögu styðja við þróun á aðlaðandi umhverfi fyrir íbúa og gesti. Skipulagsvinna á vegum sveitarfélagsins stendur fyrir dyrum. Rannsóknir, íbúasamráð og tillögur Alternance eru mikilvægt innlegg í þá vinnu og verða nú teknar til frekari skoðunar hjá sveitarfélaginu. Þær auðga þekkingu okkar á sögu og skipulagi neðri bæjar Borgarness. Vinnan mun nýtast vel í uppbyggilegt samráð og vonandi farsæla ákvarðanatöku í skipulagsmálum í framhaldinu. Ég vil þakka sérfræðingum Alternance fyrir gott samstarf og góða vinnu,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri Borgarbyggðar.
„Okkar þverfaglega teymi hjá Alternance er afar ánægt með samvinnu við stjórnvöld og hagsmunaaðila í Borgarnesi, sem og niðurstöður verkefnisins. Niðurstöðurnar eru afrakstur vinnu sem var í beinu framhaldi af mikilli rannsóknarvinnu og sanna mikilvægi slíkrar undirbúningsvinnu í skipulagsgerð.
Borgarnes býr yfir ótrúlegri sögu, fallegri náttúru og mörgum áhugaverðum byggingum. Víkingagrafirnar í miðbænum eru einstakar á heimsvísu, að þarna séu sjálfur Skallagrímur, sonarsonur hans Böðvar Egilsson og ef til vill faðir hans Kveld-Úlfur, grafnir, er algjörlega einstakt. Einnig að þarna hafi gerst mikilvægir atburðir úr Egilssögu á borð við dauða Brákar, gera staðinn óviðjafnanlegan.
Það er því full ástæða til þess að haugunum við Skallagrímsgarð og Kveld-Úlfsvöll verði gert hátt undir höfði, auk þess sem íbúar í Borgarnesi eiga svo sannarlega skilið að fá myndarlegt miðbæjartorg í hjarta bæjarins. Við erum hreykin að hafa ýtt því verkefni úr vör ásamt fulltrúum Borgarbyggðar og unnið að hönnun þess með þátttöku íbúa. Við Brákartorg hefst saga kaupstaðarins og þar hentar því vel að byggja upp annað mannlífstorg, þar sem gott er að hittast, njóta útsýnisins og nálægðar við sjóinn. Ásinn á milli torganna býður einnig upp á fullt af tækifærum og miðast tillögur að því að gera hann aðlaðandi og glæða hann mannlífi á ný. Markmiðið er að með nýjum torgum og ás verði gamli miðbærinn aðal dvalar- og samkomusvæði bæjarbúa og aðdráttarafl fyrir gesti, sem allir verða hreyknir af,“ segir Birgir Þ. Jóhannsson, arkitekt hjá Alternance.
Þrívíddarmyndir og myndbönd má sjá inná heimasíðu Sögutorganna: https://www.sogutorgin.is