Tilkynning frá meirihluta sveitarstjórnar

ágúst 31, 2018
Featured image for “Tilkynning frá meirihluta sveitarstjórnar”

Í ljósi fréttflutnings varðandi málefni aðila að Borgarbraut 55 sendir meirihluti sveitastjórnar Borgarbyggðar frá sér eftirfarandi tilkynningu.

Það er vilji meirihluta sveitastjórnar að ná samkomulagi við lóðarhafa á Borgarbraut 55 í þeirri stöðu sem nú er uppi. Í ljósi hennar ákvað meirihluti sveitastjórnar Borgarbyggðar að fá lögfræðilegt álit til að geta tekið faglega og upplýsta afstöðu í áframhaldandi samningaviðræðum. Í bréfi frá lögfræðingi Borgarbyggðar sem sent var til lóðarhafa þann 30. júlí s.l. var leitast við að skýra réttarstöðu sveitarfélagsins í samræmi við álitið og því lýst yfir að áhugi er fyrir því að halda áfram samningsviðræðum. Einnig kemur fram að sveitarfélagið er reiðubúið til að útvega þeim nýja lóð eða lóðir undir rekstur þeirra og semja um forsendur þess að starfsemi þeirra verði flutt af Borgarbraut 55.

Varðandi gildandi deiliskipulag á lóðinni er bent á eftirfarandi. Deiliskipulag fyrir reitinn var samþykkt af sveitarstjórn þann 8.3.2007, það öðlaðist gildi með auglýsingu nr.431/2007 í B-deild stjórnartíðinda þann 14.05.2007. Deiliskipulagið frá 2007 gerði ráð fyrir tveimur stórum byggingarreitum og þá í samræmi við landnotkun í aðalskipulagi sveitarfélagsins frá 1997.

Árið 2016 ákvað sveitarstjórn Borgarbyggðar að breyta deiliskipulagi Borgarbrautar 55-59, vegna þess að þétta á byggð umfram það sem deiliskipulagið frá 2007 gerði ráð fyrir.   Hámarks byggingarmagn fór úr 8000 m2 í 9460,8 m2.

Aðalskipulag sveitarfélagsins frá árinu 1997 gerði ráð fyrir blandaðri landnotkun íbúða, verslunar og þjónustu. Aðalskipulag sveitarfélagsins 2010-2022 sem staðfest var af ráðherra 29.06.2011 gerði ráð fyrir miðsvæði á reit Borgarbrautar 55-59.  Ekki hefur verið gert ráð fyrir athafnasvæði á reitnum frá 1997.

Það er hlutverk kjörinna fulltrúa að gæta hagsmuna sveitafélagsins og fjármuna skattgreiðenda en að sjálfsögðu er vilji allra að ásættanleg niðurstaða náist.

Umrætt bréf er birt í fundargerð byggðaráðs dagsett 20. 08.2018.

 

Meirihluti sveitarstjórnar Borgarbyggðar.

 


Share: