Fjölskyldan saman á bæjarhátíðum og foreldrar góðar fyrirmyndir!
Bæjarhátíðir eru árlegur viðburður á mörgum stöðum. Litlir sem stórir bæir víðs vegar um landið lifna við og taka stakkaskiptum. Hús, garðar og götur eru skreytt og mikil stemning myndast. Íbúar kappkosta að sýna gestum það besta sem bærinn þeirra hefur upp á að bjóða og gera hátíðina í ár betri en í fyrra. Eftirvænting og tilhlökkun ríkir oft í margar vikur áður en hátíðirnar hefjast, bæði hjá börnum og fullorðnum.
Þó bæjarhátíðir hafi mismunandi yfirbragð eru gleði og samvera ríkjandi þættir. Skemmtikraftar mæta á svæðið, göturnar iða af lífi, krakkar fá andlitsmálun og flestar einkennast hátíðirnar af fjölskyldustemningu, -allavega fram eftir degi. En hvað gerist svo þegar kvölda tekur? Liggja leiðir foreldra og unglinga þá ekki saman lengur? Hverfur fjölskyldustemningin?
Samfara bæjarhátíðum eru oft haldin böll með 16 ára aldurstakmarki. Það er gleðilegt ef foreldrar og unglingar geta dansað og skemmt sér saman en því miður er það skuggi á glæsileika margra bæjarhátíða að böllin verða til þess að unglingadrykkja verður áberandi fylgifiskur þeirra.
Þessu er þó auðveldlega hægt að sporna við og eru foreldrar mikilvægustu aðilar til þess.
Foreldrar geta haft afgerandi áhrif á hvað þeirra unglingur gerir með því að fylgja honum vel eftir, vera góð fyrirmynd og bjóða upp á samveru sem er gefandi fyrir unglinginn.
Kannanir hafa sýnt að unglingar sem verja miklum tíma með fjölskyldu sinni, búa við umhyggju, aðhald og stuðning foreldra eru líklegri til að forðast áhættuhegðun, s.s. áfengis- og fíkniefnaneyslu. Þau eru einnig líklegri til að standast neikvæðan hópþrýsting.
Samstarfshópur um forvarnir í Borgarbyggð og SAMAN-hópurinn hvetur foreldra til aukinna samvista við unglingana. Sýnum þeim ást okkar og umhyggju óhikað, m.a. með því að fylgja þeim eftir þar sem hætta er á að áfengi eða fíkniefni séu í umferð.
Nokkrir góðir sumarpunktar!
Við kaupum ekki áfengi fyrir börnin okkar.
Við fylgjumst með hvað börnin okkar gera og með hverjum þau eru.
Við leyfum ekki eftirlitslaus partý.
Við hleypum börnum okkar ekki einum á útihátíðir/bæjarhátíðir.
Við nýtum öll tækifæri til samveru við hvort annað, börn, frænkur, foreldra og fjölskyldur.
Við kaupum ekki áfengi fyrir börnin okkar.
Við fylgjumst með hvað börnin okkar gera og með hverjum þau eru.
Við leyfum ekki eftirlitslaus partý.
Við hleypum börnum okkar ekki einum á útihátíðir/bæjarhátíðir.
Við nýtum öll tækifæri til samveru við hvort annað, börn, frænkur, foreldra og fjölskyldur.
Við erum góðar fyrirmyndir!
Ef ábyrgðin er í réttum höndum og grundvallaratriðin ljós er líklegra að gæfan verði okkur hliðholl og allir skemmti sér vel.
Áfram foreldrar! Gleðilegar bæjarhátíðir í sumar.
Sumarkveðja frá Samstarfhópi um forvarnir í Borgarbyggð og SAMAN-hópnum.