Þrektæki endurnýjuð

nóvember 11, 2002
Áhugi á almenningsíþróttum fer stöðugt vaxandi og hefur tækjakostur Íþróttamiðstöðvarinnar í Borgarnesi verið endurnýjaður.
Keypt voru notuð tæki sem sérstaklega eru með þarfir almennings í huga. Um er að ræða 10 stöðva þrekhring sem tekur á stærstu vöðvahópum líkamanns.
 
Þetta kemur sér vel fyrir fólk sem stundar almenningsíþróttir á svæðinu, en íþróttahúsið er fyrir löngu orðið of lítið og kemst almenningur lítið sem ekkert að í stóra salnum og því nauðsynlegt að byggja upp góðan líkamsræktarsal með þarfir þessa hóps í huga.
Á annað hundrað iðkendur eru í skipulögðum æfingum í þreksalnum hjá íþróttafræðingi og fer fjölgandi.
Bæjarstjórn og tómstundanefnd Borgarbyggðar var boðið í heimsókn til að skoða tækin og fóru í þrekhring hjá Írisi Grönfeld íþróttafræðingi sem sér um skipulag og þjálfun almenningsíþrótta við íþróttamiðstöðina. Var ekki annað að sjá að menn væru hrifnir af nýju tækjunum og nokkrir strengdu þegar áramótaheitið.

Share: