“Það sást tófa” – fyrirlestur í Snorrastofu

febrúar 11, 2013
„Það sást tófa“ er heiti á forvitnilegum fyrirlestri Snorra Jóhannessonar bónda á Augastöðum um íslenska refinn, veiðar á honum og samskipti manns og tófu. Fyrirlesturinn er hluti fyrirlestraraðarinnar, Fyrirlestrar í héraði, sem Snorrastofa í Reykholti stendur að og verður hann fluttur þar þriðjudaginn 12. febrúar næstkomandi kl. 20.30.
 
 
Að sögn Snorra er heiti fyrirlestursins sótt í minningu hans frá Húsafelli fyrir margt löngu, þar sem hann dvaldi ungur. „Þegar kallað var upp á skörina, að tófa hefði sést, þurfti ekki að hafa fleiri orð um það sem framundan var á bænum“.
Snorri hefur með réttu verið bendlaður við íslenska refinn um langt skeið, stundað á honum veiðar og lifað sig inn í aðstæður hans og annarra villtra dýra í umhverfinu. Hann hefur auk þess staðið dyggan vörð um náttúru Arnarvatnsheiðar og efri hluta byggðar að henni, og segja má að Snorri í Augastöðum sé órjúfanlegur hluti þess svæðis, dyggur og óþreytandi málsvari land- og dýraverndar.
Í fyrirlestrinum fjallar Snorri um refinn, eðli hans og náttúru, rekur sögu refaveiða á Íslandi í lengd og bráð og varpar ljósi á stöðu þeirra í dag. Þá mega gestir á fyrirlestrinum eiga von á sögum af hans eigin veiðiferðum auk mynda, sem skýra málefnið.
Í lok fyrirlestursins er boðið til kaffiveitinga og að þeim loknum umræðna um málefni kvöldsins. Snorrastofa hvetur alla til að koma og njóta þess að hlusta á áhugavert málefni í meðförum þess, sem best til þekkir. Aðgangur er kr. 500.
 

Share: