Tækifærin eru framundan í Borgarfirði öllum og um að gera að grípa þau sagði Sturla Böðvarsson ráðherra þegar hann var gestur fréttamanna Fm. Óðals jólaútvarpi unglinga sem stendur nú sem hæst. Sturla ráðherra og Bergþór Ólason aðstoðarmaður hans fóru á kostum í hljóðstofu og töluðu um að á næsta ári yrðu framkvæmdir og umbætur í vegakerfinu á Vesturlandi og að eitt stórt verkefni hér í héraði væri á teikniborðinu sem væri því miður ekki á þessu stigi hægt að segja frá hvað væri ennþá.
Í þessum árlega bæjarmálaþætti fréttadeildar voru málin krufin og kom fram meðal annars hjá bæjarstjóra að á fjárhagsáætlun næsta árs væri gert ráð fyrir að gera framkvæmdasamning við hestamannafélagið Skugga um byggingu reiðhallar á hestamannasvæðinu á Vindási.
Fulltrúar úr bæjarráði sögðu frá stöðu mála eftir erfitt kennaraverkfall og verslunarmenn, Hlynur prestur, Theodór yfirlögregluþjónn og fleiri góðir gestir komu í spjall.
Gísli Einarsson fréttamaður var Bjarka fréttastjóra og fréttamönnum hans til aðstoðar í frábærum og jákvæðum fréttaþætti um bæjarmálin.
Þú getur nálgast útsendingu unglingana á www.borgarbyggd.is/odal.
ij.