Sveitarstjórn sendir hvatningu og jákvæða strauma út í samfélagið

mars 24, 2020
Featured image for “Sveitarstjórn sendir hvatningu og jákvæða strauma út í samfélagið”

Kæru íbúar í Borgarbyggð

Við í sveitarstjórn vitum að framundan er mikill ólgusjór og við blasa stórar og miklar áskoranir. Næstu vikur verða erfiðar og munu raska daglegu lífi eins og við þekkjum það töluvert en við verðum að hafa hugfast að um er að ræða tímabundið ástand. Samfélagið okkar er öflugt og samhent og við getum í sameiningu yfirstigið þau verkefni sem fram undan eru.

Við í sveitarstjórn viljum fullvissa ykkur um það að stjórnendur stofnana sveitarfélagsins hafa og eru að vinna hörðum höndum að því að sjá til þess að starfsemi stofnana í Borgarbyggð haldist eins lítið skert og og kostur er. Þetta er gerlegt með því að endurskipuleggja starfsemi allra stofnana og breyta þjónustunni í takt við ítrustu leiðbeiningar frá Almannavörnum hverju sinni. Viðbragðsteymi og stjórnendur sveitarfélagsins funda reglulega, meta stöðuna og taka mið af tilmælum yfirvalda að hverju sinni. Munu allir sem koma að rekstri sveitarfélagsins vinna áfram ötullega að því markmiði að tryggja íbúum eins góða þjónustu og hægt er miðað við aðstæður. Okkar markmið er ávallt fyrst og fremst að tryggja öryggi íbúa í Borgabyggð. Sveitarstjórn sendi síðastliðin föstudag konfektkassa og kerti að gjöf til allra stofnana sveitarfélagsins og vill þannig sýna samstöðu með öllum starfsmönnum í stofnununum sem glíma við krefjandi verkefni á þessum undarlegu tímum.

Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með samstöðunni í sveitarfélaginu síðustu daga. Foreldrar og börn í skólunum hafa ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum. Hafa foreldrar sýnt fullan skilning á aðstæðum, lagt sig fram um að vinna með skólunum með því að gera ráðstafanir í samræmi við breytt vinnulag og mikið skerta þjónustu. Auk þess má sjá að víðast hvar í samfélaginu okkar eru  allir að leggja sitt af mörkunum, hvort sem það eru einstaklingar, verslanir eða önnur fyriræki. Samstaðan er algjör.

Við sýnum í verki að samfélagið okkar er þétt og við stöndum saman þegar á móti blæs. Öll höfum við hlutverk í þessari baráttu í aðstæðum sem eru fordæmalausar og síbreytilegar. Nú skiptir mestu að við pössum upp á hvert annað, sérstaklega þá sem eru veikari fyrir en ekki síður okkur sjálf og fylgjum þeim leiðbeiningum sem gefnar eru út að hverju sinni.

Munum svo að við erum öll almannavarnir.

Sveitarstjórn Borgargbyggðar

 


Share: