Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkir fjárhagsáætlun

desember 13, 2019
Featured image for “Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkir fjárhagsáætlun”

Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti fjárheimildir fyrir árið 2020 og fjárhagsáætlun fyrir árin 2021 – 2023 á fundi sínum þann 12. desember s.l.

Helstu niðurstöður fjárheimilda fyrir árið 2020 eru sem hér segir:

Rekstrartekjur

Gert er ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu á árinu 2020 sem er 14,52% og er áætlað að tekjur af útsvari verði 2.063 millj kr.  

Fasteignamat í sveitarfélaginu hækkar á milli áranna 2019 og 2020 og er þeirri hækkun mætt að hluta til með lækkun á álagningarprósentu fasteignaskatts eignir í a-flokki úr 0,40% í 0,36%. Aðrar álagningarprósentur fasteignaskatts eru óbreyttar en á það skal bent að álagning í Borgarbyggð á eignir í c-flokki er með því lægra sem gerist eða 1,39%. Heildartekur sveitarfélagsins af fasteignaskatti eru áætlaðar 522 millj. kr. á árinu 2020.

Álagningarprósenta lóðarleigu verður óbreytt á milli ára eða 1,5% á fasteignamat íbúðarhúsalóða og 2,0% á fasteignamat annarra lóða.

Breytingar á öðrum gjaldskrám Borgarbyggðar taka mið af því sem um var samið í lífskjarasamningum og hækka ekki meira en 2,5%.  Undantekningar eru þær gjaldskrár sem bundnar eru breytingum byggingavísitölu og gjaldskrá vegna sorphirðu en hún hækkar um 17,5% til að mæta síauknum kostnaði við þennan málaflokk.  

Dvalargjöld í leikskólum hækka ekki á milli áranna 2019 og 2020 og hafa ekki hækkað síðan í byrjun árs .

Borgarbyggð fær framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og er áætlað að það verði 1.164 millj. kr. á árinu 2020.    

Rekstrargjöld

Stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins eru laun og launatengd gjöld og er áætlað að sá líður verði um 2.607 millj kr á árinu 2020. Í áætluninni er reiknað með að starfsemin verði í stórum dráttum svipuð og á árinu 2019 og er gert ráð fyrir að laun hækki í takt við spá Hagstofu Íslands um breytingu á launavísitölu á milli ára en þar er gert ráð fyrir 5,5% hækkun. Áætlunin er þó unnin niður á hverja einstaka deild og talsverð vinna lögð í að gera hana eins nákvæmlega og hægt er þar sem þessi útgjaldaliður er um 57% af heildartekjum sveitarfélagsins.  

Aðrir útgjaldaliðir taka mið af spá Hagstofunnar um breytingu á neysluverðsvísitölu á milli áranna 2019 og 2020 en gert er ráð fyrir að hún hækki um 3,2%. Forstöðumenn stofnana vinna þessa áætlun að miklu leyti. 

Helstu fjárhæðir í rekstaráætlun 2020

Starfsemi sveitarfélagsins er skipt í tvo hluta skv. sveitarstjórnarlögum. Í a-hluta eru aðalsjóður, eignasjóður og menningarsjóður en undir þá falla allur rekstur málaflokka, viðhald fasteigna og rekstur þeirra. A-hlutinn er að meirihluta fjármagnaður með skattekjum. Í b-hluta eru stofnanir sem að hálfu eða að meirihluta eru í eigu Borgarbyggðar. Þær eru fjármagnaðar að 50% eða meira með þjónustutekjum og reknar sem sjálfstæðar einingar. Í tilfelli Borgarbyggðar er hér um að ræða sorphirðu, fjallskilasjóði, félagslegar íbúðir, Hjálmaklettur, vatnsveitur, ljósleiðari, viðbygging við Brákarhlíð, Menntaskóli Borgarfjarðar, Nemendagarðar MB og Reiðhöllin Vindási. 

Helstu fjárhæðir í rekstraráætlun 2020 eru þessar (í þús. kr.):

                                                  A-hluti              A+B hluti

Rekstrartekjur                        4.146.753          4.591.153

Rekstrargjöld                         3.880.505        4.292.826

Niðurstaða án fjármagnsl.   266.248           298.328

Fjármagnskostnaður             58.583             114.894

Rekstrarafgangur                   207.665           183.434

Fjárfestingar

Á árinu 2020 er gert ráð fyrir fjárfestingum og framkvæmdum fyrir 654 millj. kr. Þar vega þyngst að haldið verður áfram með þær framkvæmdir sem nú eru í gangi þ.e. endurbætur á húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi, bygging leikskólans Hnoðrabóls á Kleppjárnsreykjum og lagning ljósleiðara um dreifbýli Borgarbyggðar.

Efnahagsreikningur og sjóðsstreymi

Gert er ráð fyrir að taka þurfi lán að upphæð 500 millj. kr. á árinu 2020 til að mæta fjárfestingum. Afborganir lána verða 237 millj. kr. og aukast því skuldir á þessu ári en þær hafa hins vegar verið að minka jafnt og þétt undanfarin ár. Reiknað er með að hækkun lífeyrisskuldbindinga verði um 83 millj. kr. á árinu 2020.

Gert er ráð fyrir að handbært fé A+B-hluta verði um 232 millj. kr. í árslok 2020.

Helstu fjárhæðir í efnahagsreikningi fjárhagsáætlunar í árslok 2020 eru þessar:

                                                   A-hluti          A+B hluti

Fastafjármunir                        6.067.974        8.030.497

Veltufjármunir                        745.953           699.546

Eigið fé                                      3.978.553        3.950.591

Lífeyrisskuldbindingar          1.020.969        1.020.969

Langtímaskuldir                      1.181.065        3.043.419

Skammtímaskuldir                 633.320           715.045

Áætlun fyrir árin 2021 – 2023

Í áætlun áranna 2021 – 2023 er gert ráð fyrir að útsvarstekjur sveitarfélagsins breytist í takt við spá Hagstofu Íslands um breytingar á launavísitölu. Aðrar tekjur breytist í takt við spá um neysluverðsvísitölu. Launakostnaður mun einnig breytast í takt við launavísitölu en aðrir útgjaldaliðir taka mið af breytingum neysluverðsvísitölu.

Öll árin er gert ráð fyrir rekstrarafgangi A+B hluta í kringum 167 millj. kr. á hverju ári og að fjárfest verði fyrir 187,3 millj. kr. á árinu 2021, 245 millj. kr. á árinu 2022 og 490 millj. kr. á árinu 2023. Gert er ráð fyrir að tekin verði ný lán fyrir 100 millj. kr. á árinu 2021 og 200 millj. kr. á árinu 2023.  Á árunum 2021 – 2023 er gert ráð fyrir að afborganir lána verði um 800 millj. kr. þannig að reiknað er með lækkun skulda á tímabilinu sem nemur 500 millj. kr.

Brúin til framtíðar

Frá árinu 2015 hefur verið unnið eftir verkefni sem heitir „Brúin til framtíðar“ og felur það í sér að sett er upp heildaryfirlit um fjármál sveitarfélagsins þannig að samhengi milli rekstrarafkomu, fjárfestingargetu og efnahags verði skýr. Fyrirtækið KPMG hefur unnið að þessu verkefni með sveitarfélaginu.  Meginmarkmið varðandi fjárhag sveitarfélagins og stofnana þess eru:

  •        Að framlegð A+B hluta verði ekki lægra en 8,5%
  •        Að fjárfestingar á þriggja ára tímabili verði ekki meiri en 1.500 millj kr.
  •        Að hlutfall afborgana lána hjá A+B hluta verði ekki hærra en 70% af framlegð ársins
  •        Að B hluta fyrirtæki verði sjálfbær og framlög A hluta til B hluta verði vel rökstudd
  •        Að staða handbærs fjár í lok hvers mánaðar verði ekki lægri en 150 millj kr.

Þegar áætlun Borgarbyggðar fyrir árin 2020 – 2023 er mátuð við þessi markmið er ljóst að þau standast að stærstum hluta. 

Framlegð verður aldrei undir 8,5% á tímabilinu 2020 – 2023.

Fjárfestingaviðmiðið árin 2019 – 2021 er örlítið yfir viðmiðinu en hins vegar ef tekið er tímabilið 2020 – 2022 er það vel undir því marki sem sett er. 

Hlutfall afborgana lána fer aldrei yfir 65% á tímabilinu.   

B-hluta fyrirtækin eru ekki sjálfbær og þurfa að fá framlag úr aðalsjóði til að standa undir rekstrinum. Verið er að vinna í því að finna leiðir til að hægt sé að minnka eða leggja niður þessi framlög.

Áætlað er að staða handbærs fjár í lok hvers árs verði aldrei minni en markmiðin gera ráð fyrir og er reiknað með að lægst verði hún um 230 millj. kr.

 

 

 

 


Share: