
Sumarnámskeiðin í Borgarbyggð fara vel af stað, fjölmargir krakkar eru þessa dagana á fullu í fjölbreyttum og skemmtilegum námskeiðum. Gaman er að sjá börnin prófa nýja hluti en út frá myndum að dæma má sjá að allir skemmta sér vel. Í gær (11. júní) var kíkt á hluta af þeim námskeiðum sem fara fram í sumar. BMX Brós fara yfir grunnatriði þess að læra stökkva á hjólum, jafnvægisæfingar og skemmtilegar þrautabrautir.
Klifur og ævintýranámskeið er einnig á dagskrá þessa dagana en á námskeiðinu kynnast krakkarnir klettaklifri og öllu því sem því fylgir, að klifra í klettum, klifurvegg og í trjám. Þá verður einnig farið á kajak á námskeiðinu og í fleiri útivistartengd ævintýri.
Á Parkour-námskeiðinu er unnið með grunnatriði í parkour eins og vault (hindrunarstökk), jafnvægi og lendingar. Farið er í gegnum fleiri stökk og hvernig á að hreyfa sig á öruggan hátt í alls kyns umhverfi. Áhersla er lögð á leikgleði, samvinnu og að styrkja bæði líkama og hugrekki.