Sumardvöl fyrir heldri borgara í júní – fræðsla, skemmtun útivist

júní 5, 2009
Háskólinn á Bifröst býður aldurshópnum 60+ upp á 5 daga dvöl á Bifröst dagana 8.-12. júní þar sem áhersla verður lögð á fræðslu, skemmtun og útivist í einstöku umhverfi skólans í Borgarfirði.

Markmiðið er að þátttakendur njóti fjölbreyttrar dagskrár með fræðsluerindum og ráðgjöf um ýmis brýn málefni líðandi stundar. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra setur dagskrána. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, kemur einnig í heimsókn og fjallar um stöðuna í efnahagsmálum. Boðið verður upp á fyrirlestra á degi hverjum þar sem færustu sérfræðingar halda erindi:

  • Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst fjallar um framtíðarhorfur í íslensku efnahagslífi
  • Bryndís Hlöðversdóttir, forseti lagadeildar fjallar um stjórnlagaþing
  • Jón Ólafsson, forseti félagsvísindadeildar fjallar um hvernig byggja megi réttlátara samfélag
  • Ásta Dís Óladóttir, forseti viðskiptadeildar fjallar um framtíðarhorfur í íslensku fjármálalífi og fjármálaráðgjöf fylgir í kjölfarið
  • Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent og forstöðumaður Evrópufræðaseturs fjallar um kosti og galla inngöngu Íslands í Evrópusambandið
  • Lára V. Júlíusdóttir, hrl. og stundakennari við Háskólann á Bifröst fjallar um almannatryggingar og réttindi eldri borgara
  • Sr. Elínborg Sturludóttir, sóknarprestur í Stafholti, fjallar um lífsgleði og lífsgæði á óvissutímum

 
Boðið verður upp á skoðunarferð um Borgarfjörð þar sem m.a. Reykholt og Landnámssetur Íslands verða heimsótt.
Mikil áhersla verður lögð á fjölbreytta hreyfingu og útivist þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, s.s. göngutúra, morgunleikfimi og golf á golfvellinum Glanna.Gunnar Þórðarson, tónskáld, mun troða upp á kvöldvöku og síðasta kvöldið verður haldinn harmónikkudansleikur í hátíðarsal skólans. Þátttakendum stendur til boða að nýta alla þjónustu háskólans, m.a. bókasafn, líkamsræktaraðstöðu, pottasvæði og kaffihús.
 
Innifalið í þátttökugjöldum er gisting í stúdíóíbúðum og fullt fæði ásamt aðgangi að allri dagskrá og skoðunarferðum.
 
Verð fyrir 1 í herbergi er kr. 11.000 dagurinn, samtals kr. 55.000 fyrir 5 daga.
Verð fyrir 2 í herbergi er kr. 9.000 dagurinn, samtals kr. 90.000 fyrir 5 daga.
 
Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér möguleika á styrkjum hjá fræðslusjóðum stéttarfélaganna.
 
Skráning fer fram í síma 433-3000 og með því að smella hér.

Allar nánari upplýsingar veitir Geirlaug Jóhannsdóttir í síma 433-3015 / 893-8960 og með tölvupósti geirlaug@bifrost.is .
 

Share: