Nemendur í Grunnskóla Borgarfjarðar héldu flóamarkað á dögunum. Ágóðinn af markaðinum var alls 160.000 krónur og ákváðu krakkarnir að öll upphæðin rynni til góðgerðamála. Unicef á Íslandi fékk 80.000 krónur og RKÍ fékk 80.000 krónur.
Nemendur höfðu lagt mikla vinnu í að kynna sér ástandið í flóttamannabúðum í Sýrlandi og fengu lánað flóttamannaskýli hjá RKÍ til að nota á markaðsdeginum. Þar var seldur súpuskammtur eins og nemendur telja að íbúar í slíkum búðum fái að borða.
Margrét Vagnsdóttir og Brynjólfur Guðmundsson frá Borgarfjarðardeild Rauða kross Íslands veittu söfnunarfénu viðtöku. Margrét þakkaði nemendum frábæran stuðning fyrir hönd RKÍ og sagði það einstakt að finna hve vel hópurinn væri samstilltur í þessu framtaki.
Á myndunum má sjá stelpurnar í 9. bekk við flóttamannatjaldið og Margréti og Brynjólf með hluta nemenda.