Styrkir til atvinnumála kvenna

janúar 20, 2012
Fréttatilkynning
Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um styrki til atvinnumála kvenna er velferðarráðherra veitir árlega. Styrkir þessir hafa verið veittir síðan árið 1991 og er markmið þeirra að efla atvinnulíf og auka aðgengi kvenna að fjármagni.
Til ráðstöfunar að þessu sinni eru 30 milljónir og er hámarksstyrkur að þessu sinni kr. 3.000.000.
Sérstök ráðgjafanefnd metur umsóknir og er umsóknarfrestur til og með 14. febrúar og mun úthlutun fara fram í apríl.
Styrkhæf verkefni skulu vera í eigu kvenna (amk 50%) og stjórnað af konum og skulu fela í sér atvinnusköpun til frambúðar. Um nýnæmi skal vera að ræða og kröfur eru gerðar um að verkefni skekki ekki samkeppnisstöðu á markaði.
Veittir eru styrkir til gerðar viðskiptaáætlunar, áætlanagerðar, þróunarkostnaðar og markaðssetningar (innanlands og erlendis). Auk þess geta konur sem hafa nýlega stofnað fyrirtæki eða eru að stofna fyrirtæki, sótt um styrk til að koma fyrirtækinu í framkvæmd (launastyrkur). Með þeirri umsókn þarf að fylgja fullgerð viðskiptaáætlun.

Ekki eru veittir styrkir vegna stofnkostnaðar, framkvæmda, stærri fjárfestinga né rekstrarstyrkir. Vakin er athygli á því að styrkir eru skattskyldir og þarf að telja fram kostnað á móti.
Ekki eru veittir hærri styrkir en sem nema helming kostnaðar við verkefni en þetta á þó ekki við um gerð viðskiptaáætlunar.
Allar nánari upplýsingar og leiðbeiningar um útfyllingu umsóknar má finna á heimasíðunni www.atvinnumalkvenna.isen þar er að auki rafrænt umsóknareyðublað.
 
 

Share: