Stöngin inn í Lyngbrekku

mars 17, 2014
Leikdeild Umf Skallagríms frumsýndi söng- og gamanleikinn Stöngin inn í Lyngbrekku síðastliðinn föstudag. Stöngin inn er bráðskemmtilegt nýtt verk eftir Guðmund Ólafsson leikara. Verkið var frumflutt fyrir ári hjá sameiginlegu leikfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar var sú uppfærsla tilnefnd athyglisverðasta leiksýning áhugaleikfélaganna árið 2013 og var í kjölfarið sýnd í Þjóðleikhúsinu.
Leikarar á sviðinu eru sextán talsins og þar af eru átta nýliðar hjá leikdeildinni en alls koma yfir þrjátíu manns að sýningunni með einum eða öðrum hætti. Falleg og fjörug Abbalög leika stórt hlutverk í sýningunni. Leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson, Birna Hafstein stýrir dansatriðum og Steinunn Pálsdóttir stjórnar hljómsveit.
Leikritið vísar í forngríska gamanleikinn Lýsiströtu þar sem konurnar reyna að fá karlana til að láta af stríðsrekstri með því að setja þá í kynlífsbann, en hér eru það konurnar í litlu bæjarfélagi sem freista þess að fá karlana til að sýna sér meiri athygli, og hætta að horfa á fótbolta í tíma og ótíma, með kynsvelti.
 
3. sýning miðvikudaginn 19. mars
4. sýning fimmtudaginn 20. mars
5. sýning föstudaginn 21. mars
6. sýning sunnudaginn 23. mars
 

Share: