Árið 2020 fékk verkefnið „Hinsegin Borgarbyggð“ styrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands en verkefnið gengur út á að halda Gleðigöngu í Borgarnesi sem var fyrirhuguð sumarið 2020. En eins og svo mörg verkefni fór Gleðigangan á ís vegna heimsfaraldursins.
Nú í ár er undirbúningur hafin á ný og hefur vaxið fiskur um hrygg, en í tilefni Gleðigöngunar hafa skipuleggjendur ákveðið að stofna Hinsegin Vesturland hagsmunasamtök hinsegin fólks, aðstandenda þeirra og áhugafólks um mannréttindi. Um er að ræða hagsmunafélag að Samtökunum 78 og ætlar félagið að standa fyrir fræðslu fyrir bæði hinsegin fólk og aðra sem vilja fræðast og sýna stuðning.
Stofnfundur félagsins er fyrirhugaður 11. febrúar n.k. og eru áhugasamir hvattir til að fylgjast með á Facebook síðu Hinsegin Vesturlands.
Systurnar Guðrún Steinunn og Bjargey Anna Guðbrandsdætur eru verkefnastjórar Hinsegin Vesturlands og Gleðigöngunar í Borgarnesi.