Stjórnsýsluhópur Borgarbyggðar

júlí 9, 2007
Haustið 2006 var skipaður vinnuhópur um endurskipulagningu á stjórnsýslu og upplýsingakerfi Borgarbyggðar. Vinnuhópurinn heyrir undir byggðaráð og starfar verkefnisstjóri með hópnum í átta mánuði. Starfstíminn er frá 18. október 2006 til 31. desember 2008. Í hópnum sitja þrír fulltrúar tilnefndir af byggðaráði og tveir fulltrúar starfsmanna tilnefndir af sveitarstjóra. Tilnefndir af byggðaráði eru: Björn Bjarki Þorsteinsson, Sigríður Björk Jónsdóttir og Sveinbjörn Eyjólfsson og tilnefnd af sveitarstjóra eru: Páll S. Brynjarsson (formaður) og Hjördís H. Hjartardóttir. Starfsmaður hópsins er Hólmfríður Sveinsdóttir.
 
Hlutverk hópsins er að hafa yfirumsjón með endurskipulagningu á stjórnsýslu sveitarfélagsins og yfirumsjón með nýtingu þess fjármagns sem sveitarfélagið fékk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til endurskipulagningar stjórnsýslu. Helstu verkefni vinnuhópsins samkvæmt erindisbréfi eru:
– innleiðing árangurs- og samningsstjórnunar
– endurskoðun verkferla og vinnutilhögun almennt
– endurskoðun á skipulagi fjárhagsáætlunargerðar og eftirfylgni með fjárhagsáætlun
– gerð endurmenntunaráætlunar fyrir stjórnendur stofnana sveitarfélagsins
– námskeiðahaldi fyrir sveitarstjórnarmenn
– heildarúttekt á rekstri eigna sveitarfélagsins með það að markmiði að taka upp nýtt skipulag á rekstri eignasjóðs
– innleiðing á nýju skjalavistunarkerfi
– innleiðing á nýju landupplýsingakerfi
– endurbótum á tölvukerfi og vinnu við nýja heimasíðu.
Ýmsum verkefnum er lokið, annað er í vinnslu og enn annað bíður umfjöllunar og afgreiðslu. Dæmi um verkefni vinnuhópsins sem eru í gangi núna eru könnun á þjónustu sveitarfélagsins meðal íbúa, innleiðing á innri samningastjórnun (milli sveitarfélagsins og stofnana þess) og undirbúningur vegna vinnu að framtíðarsýn fyrir sveitarfélagið.

Share: