Sterk fjárhagsstaða og afkoma batnar milli ára

apríl 19, 2023
Featured image for “Sterk fjárhagsstaða og afkoma batnar milli ára”

Drög að ársreikningi Borgarbyggðar fyrir árið 2022 sýna mun betri afkomu heldur en áætlun hafði gert ráð fyrir og talsverðan afkomubata milli ára. Rekstrarniðurstaða samstæðu Borgarbyggðar var jákvæð um 368 m.kr. á árinu 2022. Tekjur jukust um 19,2% og voru 6.053 m.kr. Rekstrargjöld samstæðunnar án afskrifta jukust á sama tíma um 9,0%.

Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir afskriftir var jákvæð um 824 m.kr. sem samsvarar 13,6% af tekjum. Veltufé frá rekstri samstæðunnar var 846 m.kr. eða 14,0% af tekjum og handbært fé frá rekstri var 549 m.kr.

Rekstrarniðurstaða A- hluta var jákvæð um 305 m.kr. á árinu 2022. Tekjur A-hluta jukust um 18,3% milli ára og námu 5.193 m.kr. Vöxtur skatttekna var þó heldur minni eða tæp 11% en framlög Jöfnunarsjóðs og aðrar tekjur voru hvorutveggja talsvert yfir áætlun auk þess sem munar um talsvert lægri gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga milli ára.

Hagnaður fyrir afskriftir var 561 m.kr. á árinu eða 10,8% af tekjum samanborið við 120 m.kr. eða 2,7% af tekjum árið áður. Veltufé frá rekstri A-hluta var 749 m.kr. á árinu eða 14,4% af tekjum og handbært fé frá rekstri 481 m.kr.

Fjármagnsliðir höfðu heldur minni neikvæð áhrif heldur en áætlað hafði verið en neikvæð áhrif þeirra voru 108 m.kr. á A-hluta og 225 m.kr. á samstæðuna.

Á árinu 2022 námu fjárfestingar A-hluta Borgarbyggðar í fastafjármunum 349 m.kr. og færðust heldur í aukana er leið á árið en voru þó talsvert undir áætlun. Heildareignir A-hluta Borgarbyggðar voru um áramót liðlega 9,1 ma.kr., eigið fé 5,2 ma. og eiginfjárhlutfall um 57%. Skuldaviðmið A-hluta skv. reglugerð var 32% um áramót. Hreinar vaxtaberandi skuldir A-huta, án lífeyrisskuldbindinga, voru liðlega 1,5 ma.kr. um áramót og lífeyrisskuldbindingar stóðu í 1,3 ma.kr.

Heildareignir samstæðunnar voru um 11,5 ma.kr. í árslok og eigið fé um 5,2 ma.kr.

Það er ánægjuefni fyrir íbúa Borgarbyggðar að fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk og undirliggjandi afkoma batnar verulega með fjölgun íbúa og auknum umsvifum. Skuldastaðan er viðráðanleg við erfiðar aðstæður á fjármagnsmarkaði. Trausta fjárhagsstöðu má þakka aðhaldi og aga í fjármálum síðustu ár en fjölgun íbúa að undanförnu og sterkt atvinnulíf skipta sköpum um raunvöxt tekna og afkomubata. Þess ber að geta að nánast allir málaflokkar hafa haldist innan áætlunar og á starfsfólk og stjórnendur stofnana þakkir skildar fyrir vel unnin störf.

Framundan eru fjárfestingar í innviðum sveitarfélagsins svo sem í skólum, gatnagerð og íþróttamannvirkjum. Ein forsenda fjárfestinga er að rekstur sveitarfélagsins ráði við aukna skuldsetningu sem fylgir þeim fjárfestingum. Það er því mikilvægt að viðhalda góðri afkomu og sjóðstreymi af undirliggjandi rekstri.


Share: