Í vikunni sem er að líða bauðst stelpum og kynsegin sveitarfélagsins í 8.-10. bekk að sitja námskeið sem ber yfirskriftina Stelpur-Filma. Námskeiðið er haldið af Riff og er markmið verkefnisins að hvetja stúlkur og kynsegin til kvikmyndagerðar. Megináhersla námskeiðsins er á sjálfseflingu, umburðarlyndi og að skapa öruggt rými fyrir þátttakendur þar sem skoðanir og hugmyndir eiga rétt á sér.
Alls skráðu sig 33 þátttakendur á námskeiðið sem fengu í vikunni tækifæri til að rækta innri sköpunargáfu, spegla sig í kvenkyns fyrirmyndum og læra undirstöðuatriði í kvikmyndagerð undir tryggri leiðsögn virtustu handritshöfunda og kvikmyndagerðarkvenna landsins. Þátttakendur hafa unnið í hópum og fengið kennslu í handritsgerð, leikstjórn, persónusköpun, tökum, tækjakennslu og í klippingu stutt mynda sinna, ásamt jafnréttisfræðslu svo eitthvað sé nefnt. Í lok námskeiðsins skila hóparnir síðan inn stuttmyndunum sínum sem verða aðgengilegar á heimasíðu Riff.
Það má því með sanni segja að það hafi verið í nógu að snúast og þakkir fá allir þeir sem komu að verkefninu.