Steinunn sýnir í Safnahúsi

ágúst 30, 2018
Featured image for “Steinunn sýnir í Safnahúsi”

Laugardaginn 1. september kl. 13.00 verður opnuð ný sýning í Safnahúsi.  Það er Steinunn Steinarsdóttir sem sýnir þar ullarmyndverk og hverfist sýningin um ýmis form sögu, eins og heiti hennar gefur til kynna. Verkefnið tengist líka sagnaheimi Safnahúss á ýmsan hátt. Steinunn segir svo um sýninguna: „Ævintýri, sögur og annar fróðleikur hafa verið mér hugleikin frá barnsaldri og ég hef alltaf lesið mikið, bókasafnið er mér því kært. Mig langaði að tengja sýninguna við hinu ýmsu hlutverk Safnahússins og nota því m.a. gamlar ljósmyndir af óþekktu fólki af ljósmyndasíðu Safnahússins sem innblástur ásamt sýningum Safnahússins og gef viðfangsefnunum nýtt líf og hlutverk sem sögupersónum. Með því að nota ull sem efnivið myndast enn sterkari tenging við fortíðina og handverkið sem hefur fylgt okkur sem þjóð í gegnum aldirnar.“ Steinunn er fædd 1977 og uppalin í Tröð í Kolbeinsstaðahreppi. Hún býr og starfar í Borgarnesi og lauk prófi frá Fagurlistabraut Myndlistarskólans á Akureyri vorið 2016 og hafði áður lokið fornámi við sama skóla. Hún hefur tekið þátt í allmörgum samsýningum og sýndi síðast í Hallsteinssal í Safnahúsi fyrir tíu árum. Það verður því áhugavert að sjá þau verk sem hún sýnir þar nú og fylgjast með þróun í listsköpun þessarar hæfileikaríku listakonu. Sýningin er í Hallsteinssal á efri hæð Safnahúss og stendur til 26. október.  Opið verður til kl. 16.00 á opnunardaginn og eftir það á afgreiðslutíma bókasafns, kl. 13.00 – 18.00 virka daga, eða eftir samkomulagi.  Ókeypis aðgangur. Næstu viðburðir í Safnahúsi eru 13. september, en þá er myndamorgunn kl. 10.00 og fyrirlestur Sigrúnar Elíasdóttur um teiknimyndasögur kl. 19.30 (ath. breyttar tímasetningar).  Nánar verður sagt frá þessum viðburðum fljótlega. Safnahúsið er staðsett við Bjarnarbraut í Borgarnesi og þar eru fimm söfn til húsa.  Á heimasíðu hússins www.safnahus.is  má sjá nánari upplýsingar um viðburði og starfsemi safnanna.  


Share: