Stefán Broddi tekur til starfa

júlí 4, 2022
Featured image for “Stefán Broddi tekur til starfa”

Þann 1. júlí sl. tók Stefán Broddi Guðjónsson til starfa sem sveitarstjóri Borgarbyggðar. Stefán á rætur að rekja til Borgarbyggðar, ólst upp í Borgarnesi og bjó hér fram á þrítugsaldurinn.

“Ég er mjög spenntur fyrir því að koma heim og taka þátt í því verkefni með starfsfólki Borgarbyggðar að bjóða íbúum upp á fyrsta flokks þjónustu.” Stefán segir tækifærin vera óþrjótandi og að verkefnið sé að hlúa að öllu því góða starfi sem unnið hefur verið hjá íbúum, fyrirtækjum, félagasamtökum og sveitarfélaginu sjálfu. “Svo þurfum við að halda áfram að byggja upp og vonandi mun íbúum og atvinnutækifærum fjölga ásamt því sem þjónusta sveitarfélagsins heldur áfram að eflast.”

Stefán segir að á næstu dögum og vikum muni hann einbeita sér að því að setja sig inn í starfið, kynnast íbúum, heimsækja stofnanir sveitarfélagsins, félög og fyrirtæki.

Stefán sem er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands hefur starfað í fjármálageiranum megnið af sínum starfsferli, sem sérfræðingur og stjórnandi. Síðustu tíu árin hefur hann starfað hjá Arion banka og var forstöðumaður greiningardeildar bankans.


Share: