Starfsmenn Borgarbyggðar sem stunda nám á skólaliðabraut framhaldsskóla, háskólanám til leikskóla, grunnskóla, íþrótta- eða tónlistarkennaraprófs eða stunda framhaldsnám á háskólastigi geta sótt um styrk til Borgarbyggðar. Styrkurinn felst í því að starfsmenn halda launum þann tíma sem þeir sækja staðbundnar námslotur og vettvangsnám.
Byggðarráð hefur samþykkt fimm umsóknir til leikskólakennaranáms, fjórar umsóknir til grunnskólakennaranáms, þrjár umsóknir til náms í sérkennslufræðum og eina umsókn í stuðningsfulltrúanám fyrir veturinn 2017-2018. Um 150 starfsmenn vinna við skóla í Borgarbyggð sem er tæplega helmingur af starfsfólki sveitarfélagsins. Því er óhætt að segja að rúmlega 8% af starfsfólki skóla sé við nám í vetur.
Með því að styrkja starfsmenn og kennara Borgarbyggðar til náms er sveitarfélagið að leggja sitt af mörkum til að draga úr kennaraskorti sem er yfirvofandi á Íslandi á næstu árum ef ekkert verður að gert. Þess má geta að vel hefur gengið að fá menntaða kennara til starfa í leik- og grunnskólum Borgarbyggðar.