
Gísli Karlsson fyrrverandi bæjar- og sveitarstjóri í Borgarnesi
Á morgun, fimmtudag, verður borinn til grafar Gísli Karlsson fyrrverandi sveitarstjóri og bæjarstjóri í Borgarnesi. Gísli fæddist árið 1940 á Brjánslæk á Barðaströnd. Hann lauk prófi landbúnaðarhagfræði frá Búnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1968 og starfaði í að því loknu sem ráðunautur í Danmörku. Árið 1971 réð Gísli sig til starfa við Bændaskólann á Hvanneyri og starfaði þar sem kennari, yfirkennari og um skeið skólastjóri til ársins 1985 er hann var ráðinn sveitarstjóri í Borgarnesi. Árið 1987 varð Borgarnes formlega kaupstaður og varð Gísli þar með fyrsti bæjarstjóri Borgarness. Gísli gegndi starfi bæjarstjóra til ársloka 1987 er hann tók við starfi framkvæmdastjóra Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Eiginkona Gísla var Ágústa Hólm sem lést 2015 en þau eignuðust tvo syni, þá Benedikt árið 1974 og Ólaf Hauk árið 1981. Barnabörnin eru sjö talsins.
Gísli hafði mikla þekkingu á landbúnaðarmálum, byggðamálum og sveitarstjórnarmálum. Hér í Borgarfirði var hann farsæll kennari og skólamaður, sveitar- og bæjarstjóri og margir minnast hans með virðingu og hlýju. Hann hafði mikil áhrif á þróun landbúnaðar á Íslandi, var mikilsvirtur kennari, ráðgjafi og stjórnandi. Hann var bæjar- og sveitarstjóri í Borgarnesi á umbrotaskeiði en leysti vel úr málum af góðri þekkingu, sanngirni og léttri lund.
Gísli var virkur í kórastarfi í Borgarfirði, var í þjóðdansafélagi á Hvanneyri og lék í uppfærslu á söngleiknum Deleríum Búbónis sem sýnt var við miklar vinsældir í Brún í Bæjarsveit, svo eitthvað sé nefnt.
Starfsfólk og íbúar minnast Gísla með þakklæti fyrir vel unnin störf og í þágu sveitarfélagsins og samfélagsins í Borgarfjarðarhéraði og senda fjölskyldu hans samúðarkveðjur.
Útför Gísla fer fram frá Kópavogskirkju fimmtudaginn 3. júlí kl. 15.
Bæjar- og sveitarstjórar Borgarness frá 1956: F.v. Gísli Karlsson (1985-1987), Halldór E. Sigurðsson (1956-1968), Húnbogi Þorsteinsson (1968-1985) og Óli Jón Gunnarsson (1987-1999). Mynd: Theodór Þórðarson, tekin á samsæti bæjarstjórnar 1992.
Hreppsnefnd Borgarness 1982-1986: Réttsælis frá enda borðs: Halldór Brynjúlfsson, Brynhildur Benediktsdóttir (varamaður Jóns Agnars Eggertssonar), Guðmundur Guðmarsson, Gísli Karlsson sveitarstjóri, Georg Hermannsson, Jóhann Kjartansson, Sigrún Símonardóttir og Ingigerður Jónsdóttir. Við borðið fjær situr Eiríkur Ólafsson bæjarritari og núverandi fjármálastjóri Borgarbyggðar. Mynd: Theodór Þórðarson.