Starf leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla hafið

ágúst 26, 2016
Featured image for “Starf leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla hafið”

Leikskólar í Borgarbyggð opnuðu eftir sumarlokun í byrjun ágúst. Starfið hefur farið vel af stað, börnin komið sæl og útitekin eftir gott sumarfrí. Elstu börnin hafa kvatt og hafið sína grunnskólagöngu og aðlögun ungra barna er hafin. Í leikskólum Borgarbyggðar dvelja í vetur rúmlega 220 börn. Yngstu börnin eru um eins árs gömul.

Grunnskólar voru settir mánudaginn 22. ágúst og hófst skólastarf samkvæmt stundaskrá á þriðjudegi. Hátt í 500 nemendur verða í 1.-10. bekk í grunnskólum í Borgarbyggð í vetur og þar af eru um 50 börn að hefja nám í 1. bekk.

Í Tónlistarskóla Borgarfjarðar stunda um 200 nemendur nám. Þar starfa 9 kennarar sem kenna á hin ýmsu hljóðfæri auk söngs. Einnig er forskóladeild við skólann og hefur starf skólans verið afar fjölbreytt í gegnum árin.

Það fylgir mikil spenna og gleði fyrstu skóladögunum, bæði hjá þeim nemendum sem eldri eru en ekki síst hjá þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í grunnskólagöngunni. Á vefjum skólanna eru nánari upplýsingar um skólastarfið, myndir og frásagnir af skólasetningu og fyrstu dögunum.


Share: