„Staðir allt um kring“

janúar 4, 2018
Featured image for “„Staðir allt um kring“”

Næstkomandi laugardag þann 6. janúar kl. 13.00 verður opnuð ný sýning í Safnahúsinu. Það er myndlistarsýning Guðrúnar Helgu Andrésdóttur sem sýnir vatnslita- og olíumyndir. Guðrún Helga býr í Borgarnesi og á ættir að rekja í uppsveitir Borgarfjarðar og til Suður-Þingeyjarsýslu; dóttir Þorgerðar Kolbeinsdóttur frá Stóra-Ási og Andrésar Kristjánssonar ritstjóra.  Guðrún hefur lagt stund á myndlist um margra ára skeið og sótt sér margvíslega menntun á því sviði gegnum árin.

Á sýningunni eru myndir sem flestar eru málaðar á árinu 2017, sérstaklega fyrir sýninguna. Eru þær flestar af stöðum sem Guðrún tengist á einhvern hátt eða hefur komið á. Með það í huga nefnir hún sýninguna „Staðir allt um kring.“

Meðal myndefna eru átta bæir í Hálsasveit sem voru í Stóra-Ás kirkjusókn áður en hún var lögð niður og færð til Reykholts. Kveikjan að því er setning í bókinni Engjafang (útg. 2005) eftir móðurbróður Guðrúnar,  Magnús Kolbeinsson:

„Frá bernsku er mér minnisstætt þegar ég horfði á kirkjufólkið koma til kirkju úr þremur höfuðáttum, framan frá Hraunsási og Húsafelli, sunnan frá Augastöðum og Giljum og utan frá Kollslæk, Sigmundarstöðum og Refsstöðum.“

Auk bæjamyndanna sýnir Guðrún Helga myndir af Hafnarfjalli og Skarðsheiði, Borgarnesi, Fagraskógarfjalli og Hítardal auk Aðalvíkur og fleiri staða.

Sýningin er í Hallsteinssal á efri hæð Safnahússins, að Bjarnarbraut 4-6 í Borgarnesi. Hún stendur til 2. mars.  Opið er til kl. 16.00 á opnunardaginn og eftir það 13.00 – 18.00 virka daga.  Aðgangur er ókeypis.

Guðrún Jónsdóttir, forstöðumaður


Share: