Sparkvöllur á lóð Grunnskólans í Borgarnesi var vígður formlega s.l. fimmtudag. Fjölmenni mætti á þessa vígslustund þar sem gervigrasvöllurinn var formlega tekinn í notkun.
Bæjarstjóri, forseti bæjarstjórnar, formaður knattspyrnudeildar og framkvæmdastjóri KSÍ fluttu ávörp og Þornbjörn Hlynur Árnason sóknarprestur blessaði mannvirkið.
Ungir knattspyrnumenn sem nokkrum árum áður höfðu mætt á bæjarstjórnarfund með áskorun þess efnis að byggja svona mannvirki sáu þarna erindi sitt og draum rætast og klipptu á borða með Páli bæjarstjóra og Eyjólfi Sverrissyni verkefnastjóra sparkvallarátaks KSÍ.
Í leiðinni var tækifærið notað og KB banka og Sparisjóði Mýrasýslu þökkuð leiktæki sem bankarnir gáfu á leikvelli bæjarins nú í haust í tilefni 10 ára afmæli bæjarins.
Veitingar í boði VÍS, KB banka og Olís voru fyrir þá fjölmörgu sem mættu þrátt fyrir kulda í lofti enda gaman að sjá mannvirki sem þetta rísa í bæjarfélaginu.
ij.