Sparisjóðshúsið að ráðhúsi Borgarbyggðar?

júní 2, 2003
Sparisjóður Mýrasýslu hefur boðið Borgarbyggð að kaupa húsnæði Sparisjóðsins að Borgarbraut 14 í Borgarnesi. Að sögn Sigurðar Más Einarssonar stjórnarformanns SPM er áhugi fyrir því að byggja nýtt húsnæði fyrir starfsemi sjóðsins nær þjóðvegi eitt. “Miðbærinn hefur færst að þjóðveginum og við höfum áhuga á að færa okkur líka og vera þannig sýnilegri þannig að vegfarendur verði meira varir við okkur. Markmiðið er þá einnig að byggja fyrir þarfir framtíðarinnar. Ef af þessu verður mun afgreiðslan í Hyrnutorgi væntanlega verða lögð niður og öll starfsemin undir einu þaki á nýjan leik.” Sigurður segir þó að áform um byggingu nýs húsnæðis velti á því að hægt sé að selja núverandi húsnæði. “Ef við náum samningum við Borgarbyggð gæti farið svo að byggt yrði á næsta ári,” segir Sigurður.
Páll Brynjarsson bæjarstjóri Borgarbyggðar segir að bæjráð Borgarbyggðar hafi áhuga á að skoða þann möguleika að kaupa húsnæði SPM. “Það er ljóst að það er orðið þröngt um bæjarskrifstofurnar á núverandi stað og aðgeng er ekki nógu gott, sér í lagi ekki fyrir fatlaða. Það hefur verið gerð tillaga um hvernig breyta megi núverandi húsnæði til að bæta aðgengið og ljóst að kostnaður við það yrði verulegur. Við viljum því kanna hvort það sé jafnvel hagkvæmari kostur að flytja yfir götuna og hvað myndi kosta að breyta sparisjóðshúsinu í ráðhús.” Páll segir að það geri þann kost ekki síst spennandi að stjórnendur sparisjóðsins hafi ljáð máls á makaskiptum og séu tilbúnir að taka núverandi bæjarskrifstofur sem hluta af kaupverði Borgarbrautar 14. Ýmsar hugmyndir hafa þegar heyrst um framtíðarnýtingu núverandi bæjarskrfistofu ef af makaskiptunum yrði, m.a. að þar yrðu atvinnu eða þróunargarðar sem hugmydnir hafa verið uppi um að koma á fót í Borgarnesi.

Share: