Nú hafa gámar fyrir almennt heimilissorp verið fjarlægðir af fleiri gámastöðvum í dreifbýli sveitarfélagsins. Öll heimili í dreifbýli hafa tunnur fyrir almennan úrgang og endurvinnsluúrgang og rekstraraðilar bera ábyrgð á að koma sínum úrgangi í réttan farveg, enda greiða þeir ekki sorphirðugjöld til sveitarfélagsins. Gámar fyrir heimilisúrgang eru því einungis ætlaðir fyrir sumarhúsahverfi og miðað er við hverfi þar eru sem 20 hús eða fleiri í samræmi við lög og reglugerðir. Umgengni við gámaplön hefur á tíðum ekki verið góð og flokkun ábótavant, enda of mikið af úrgangi sem óheimilt er að urða skv. lögum, sem ratar í gámana. Móttaka úrgangs er á ábyrgð sveitarfélagsins en mikilvægt er að sú þjónusta samræmist þeim lögum og reglum sem um meðferð úrgangs gilda.