Tónlistarskóli Borgarfjarðar hefur í haust eins og undanfarin ár boðið upp á söngleikjadeild. Í haust eru 17 börn í deildinni á aldrinum 6 til 12 ára og hafa verið að æfa jólasöngleikinn Grenitréð.
Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri er tónlistarstjóri sýningarinnar, Sigríður Ásta Olgeirsdóttir leikstýrir og Birna Þorsteinsdóttir sér um hljóðfæraleik en hún samdi m.a. tvö lög í söngleiknum. Þegar ljóst var að ekki væri hægt að bjóða gestum á sýninguna vegna aðstæðna í þjóðfélaginu fékk Sigríður Ásta þá hugmynd að gera kvikmynd úr sýningunni í staðinn. Hún útskrifaðist leikari og sviðshöfundur síðastliðið vor, mitt í fyrstu bylgju Covid-19. Öll hennar lokaverkefni notuðust því mikið við myndmiðilinn og fékk hún því mikla og dýrmæta reynslu í kvikmyndagerð.
Byrjað var á að fara með börnin í Stúdíó Gott hljóð til Sissa (Sigurþórs Kristjánssonar) sem tók upp alla söngvana. Nú standa kvikmyndatökur yfir og er gaman að sjá hve mikla ánægju börnin hafa af þessu nýja formi leiklistar og eru að standa sig vel. Kvikmyndatökurnar fara fram víðsvegar í og um Borgarnes, inni og úti.
Áætlað er að tökum ljúki um miðjan desember og gert ráð fyrir að kvikmyndin verði klár til sýningar rétt fyrir jól fyrir börnin, aðstandendur þeirra og vini.
Mynd með frétt tók Dagbjört Jónsdóttir.