Snorrastofa – Mórauður hundur á dyramottunni..

maí 6, 2014
Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar flytur fyrirlestur í Bókhlöðu Snorrastofu í kvöld, þriðjudaginn 6. maí 2014 kl. 20.30. Fyrirlesturinn ber heitið „Mórauður hundur á dyramottunni. – Gamla sveitasamfélagið í Dalalífi og Landi og sonum“.
Þetta er síðasti fyrirlestur vetrarins 2013-2014 í röð Snorrastofu í Reykholti, Fyrirlestrar í héraði, sem stofnunin hefur viðhaldið frá upphafi sínu.
 
Guðrún fjallar um gamla sveitasamfélagið í verkum tveggja valinkunna rithöfunda síðustu aldar, Guðrúnar frá Lundi og Indriða G. Þorsteinssonar. Heiti erindisins Mórauður hundur á dyramottunni gefur óyggjandi vísbendingu um efni kvöldsins, þar sem skyggnst verður eftir bakgrunni þessara höfunda, sem gerðu mannlífi í sveitum landsins svo eftirminnilega skil í verkum sínum. Í brennidepli verða tvö verk þeirra, Dalalíf og Land og synir, sem báðar komu út um miðbik 20. aldar.
 
Guðrún Jónsdóttir lauk B.A. prófi frá Háskóla Íslands í íslensku og bókmenntum þar sem lokaritgerð hennar bar sama heiti og fyrirlesturinn, sem hún heldur nú í Snorrastofu. Hún menntaðist í hörpuleik og tónmenntafræði í Salzburg og Vínarborg á árunum í kringum 1980 og hefur einnig sótt nám vegna leiðsagnar ferðamanna og safngesta. Hún réðist sem forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar árið 2007 en hafði fram að því sinnt ýmsum málum í héraði, sem snertu menningu og fræðslu í víðri merkingu, tekið þátt í stjórnun sveitarfélagsins og unnið efni fyrir fjölmiðla, m.a. þætti fyrir Ríkisútvarpið.
 
 

Share: