Þorsteinn, Áslaug og dætur |
Þá verður fjallað um bóndann á Úlfsstöðum, Þorstein Jónsson og konu hans Áslaugu Aðalheiði Steinsdóttur, sem bæði eru látin. Framsögu hafa Ragnhildur dóttir þeirra og tengdasonurinn Sveinn Víkingur Þórarinsson, sem bæði búa á Úlfsstöðum. Einnig mun dóttursonur þeirra Þorsteins og Áslaugar, Þorsteinn Þorsteinsson jarðeðlisfræðingur, flytja erindi. Saman draga þau upp mynd af heimilinu á Úlfsstöðum og fjalla um ritstörf, skáldskap og heimspekihugleiðingar Þorsteins og ýmislegt annað, sem setti svip á æviferil þeirra hjóna.
Þorsteinn Jónsson skáld, rithöfundur og bóndi fæddist 5. apríl 1896 að Úlfsstöðum í Hálsasveit. Foreldrar hans voru Guðrún Hallfríður Jónsdóttir og Jón Þorsteinsson. Þorsteinn ólst upp á Úlfsstöðum og átti þar heima nær alla tíð. Hann gekk í Hvítárbakkaskóla og dvaldi einn vetur (1933-4) í Sviss. Kona hans, Áslaug Aðalheiður Steinsdóttir, var fædd 5. september 1907 á Spena í Austurdal í Miðfirði. Valgerður móðir hennar fæddist á Óspaksstöðum í Hrútafirði og faðirinn, Steinn Ásmundsson, var ættaður frá Snartartungu í Bitrufirði. Áslaug lést 11. júlí 1998. Þau hjónin eignuðust 4 dætur.
Þorsteinn gerðist bóndi um skamma hríð í Geirshlíðarkoti í Flókadal og síðan á Úlfsstöðum. Var þar fyrst búið í torfbænum gamla, en árið 1937 byggðu þau hjónin steinhús skammt frá gamla bænum. Það eyðilagðist í eldsvoða á nýársdag 1952. Eftir það reistu þau hið glæsilega hús, sem nú stendur á Úlfsstöðum og þar hófu þau meðal annars merkilegt brautryðjendastarf við ferðaþjónustu, sem þau ráku árin 1972-1981. Þar tóku þau á móti ferðamönnum frá öllum heimshornum, alls 15 löndum. Baðstofa torfbæjarins var tekin niður árið 1974 og var þá talin ein best varðveitta baðstofa á landinu. Hún er nú til sýnis í Safnahúsi Borgarfjarðar.
Þorsteinn stundaði alla tíð ritstörf og tileinkaði sér af gaumgæfni heimspekikenningar Dr. Helga Pjeturss. Hann stofnaði Félag Nýalssinna, sem lengi var vettvangur stuðningsmanna Dr. Helga og tók þátt í starfi þess eftir föngum. Um árabil, eða frá 1953 til 1972 var Þorsteinn ritstjóri Félagsblaðs Nýalssinna og ritaði jafnan mikið í blaðið. Þorsteinn lést 18. júlí 1991.
Fyrirlestrakvöldið hefst kl. 20.30 og að venju verður boðið til kaffiveitinga og umræðna. Aðgangseyrir er kr. 500.