Undanfarna daga hefur ellefu manna hópur frá Slóvakíu, 7 nemendur og 4 kennarar verið í heimsókn hjá nemendum 9. og 10. bekkja í Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi. Heimsóknin er liður í þátttöku skólans í Comeniusarverkefni. Slóvönsku nemendurnir gista heima hjá nemendum en kennarar gista á Varmalandi. Nemendur beggja landa hafa flutt kynningar sem þeir hafa verið að vinna að undanfarnar vikur. Þá hefur hópurinn farið í Borgarnes þar sem þau skoðuðu sýningarnar „Börn í 100 ár“ í Safnahúsinu og „Egilssýninguna“ í Landnámssetrinu, borðað rammíslenskan mat á Hraunsnefi, farið í sund í kuldanum og rútuferð um uppsveitir Borgarfjarðar. Heimsókninni lýkur í dag.