Þann 25. október s.l. barst slökkviliði Borgarbyggðar beiðni um aðstoð frá slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar vegna elds í kísilverksmiðju Elkem á Grundartanga. Slökkvilið Borgarbyggðar sendi á vettvang körfubíl ásamt þremur mönnum til aðstoðar.
Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins og var starfi lokið um kl. 09:00 um morguninn. Skemmdir urðu á húsnæði og búnaði.
Þess má geta að öll slökkvilið á Vesturlandi eru með samning sín á milli sem kveður á um gagnkvæma aðstoð ef og þegar erfiðar aðstæður skapast á landsvæðinu og hefur þetta fyrirkomulag margsannað ágæti sitt, nú síðast á föstudaginn. Slökkvilið Borgarbyggðar er með samskonar samning í gildi við Brunavarnir Suðurnesja og auk þess getur slökkviliðið nýtt æfingaaðstöðu BS við Keflavíkurflugvöll.