Undanfarið hefur Slökkvilið Borgarbyggðar verið með fræðslu um brunavarnir í leikskólum Borgarbyggðar. Líkt og áður er farið með verkefnið um Loga og Glóð og ætlað er elstu börnunum eða skólahópum leikskólanna. Þar er farið yfir hætturnar sem fylgja því ef eldur er laus og hvernig þau eiga að bregðast við ef reykskynjarar eða brunaboðar senda frá sér boð. Þá fá börnin verkefni sem þau vinna að hluta til í skólanum og að hluta heima með foreldrum sínum. Sá hluti verkefnisins sem þau vinna með foreldrum sínum snýr að brunavörnum og viðbrögðum við eldsvoða á heimilum barnanna. Þegar börnin eru búin að vinna verkefnið fá þau viðurkenningarskjal frá Slökkviliði Borgarbyggðar.
Meðfylgjandi myndir tók Haukur Valsson.