Skólastarf hefst

ágúst 24, 2016
Featured image for “Skólastarf hefst”

Skólastarf vetrarins hófst á skipulagsdögum kennara og annars starfsfólks. Dagarnir voru að hluta til nýttir í að hefja tvö þróunarverkefni. Annars vegar var um að ræða fræðslu um teymiskennslu fyrir grunnskólakennara Grunnskólans í Borgarnesi og Grunnskóla Borgarfjarðar og hins vegar sameiginlegur hugarflugsdagur starfsfólks allra leikskóla og grunnskóla í Borgarbyggð.

Teymiskennsla

Unnið verður að því í vetur að styðja þá kennara sem vilja innleiða teymiskennslu í anda lærdómssamfélags í grunnskóla Borgarbyggðar. Í verkefninu verður lögð áhersla á sameiginlegan skilning og sýn kennara á gildi teymiskennslu og hvaða þættir einkenna hana. Fjallað verður um hvernig teymiskennsla getur stutt við nám án aðgreiningar eða skóla margbreytileikans. Að lokum verður fjallað um hvernig teymi kennara getur unnið að námsmati í takt við áherslur aðalnámskrá grunnskóla. Ingvar Sigurgeirsson prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands verður verkefnasstjóri og mun sjá um fræðslu, ráðgjöf og leiðsögn í vetur. Þann 18. ágúst hófst verkefnið með fræðsludegi undir stjórn Ingvars og Þórhildar Helgu Þorleifsdóttir. Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast hér: http://skolastofan.is/throunarverkefni/innleiding-teymiskennslu-i-skolunum-i-borgarbyggd

Hugarflug – nýsköpunarverkefni

Hugarflug í Borgarbyggð er verkefni sem styrkt er af Sprotasjóði og hefur að markmiði að innleiða nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í leik- og grunnskóla sveitarfélagsins, að efla samstarf milli skólastiga og móta námskrá og námsmat í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Fyrirtækið Creatrix sér um verkefnastjórn en Símenntun Vesturlands og Innoent education á Íslandi mun sjá um fræðslu og þjálfun. Þann 19. ágúst hófst verkefnið formlega með sameiginlegum degi starfsfólks leik- og grunnskóla þar sem allir tóku þátt í verkefnum og spilum sem efla skapandi hugsun og samvinnu. Í kjölfarið mun hópur kennara úr leik- og grunnskólum taka þátt fræðslu og þjálfun í nýsköpun- og frumkvöðlamennt. Þeir kennarar sem fara í gegnum þjálfunina munu búa yfir hæfni til þess að skipuleggja og leiða nýsköpunar – og frumkvöðlasmiðjur og verkefni með nemendum.

Hugarflug 3

hugarflug 7


Share: