Skipulagsbreyting í Íþróttamiðstöðinni

september 13, 2000

Á fundi tómstundanefndar Borgarbyggðar 31. ágúst s.l. var lögð fram tillaga um skipulagsbreytingu í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi. Tillagan fól í sér að staða forstöðumanns yrði lögð niður og að vaktstjórar heyrðu undir íþrótta- og æskulýðsfulltrúa. Skipulagsbreytingin var samþykkt á aukafundi bæjarstjórnar 5. september s.l.

Undanfarin misseri hefur verið unnið í anda þessarar breytingar þar sem forstöðumaður hefur sinnt verkefnum eins af þremur vaktstjórum. Hefur það fyrirkomulag gefist vel. Ráðningarsamningur forstöðumanns rann út 31. ágúst s.l. og var því ákveðið að leggja til að festa fyrirkomulagið í sessi með formlegri skipulagsbreytingu, án þess að það feli í sér miklar breytingar á starfseminni. Þessi breyting er í samræmi við hugmyndir vinnuhóps um íþrótta- og tómstundamál í sveitarfélaginu sem kynntar voru í bæjarstjórn í lok síðasta árs.
Ofangreindri skipulagsbreytingu er ekki beint gegn fráfarandi forstöðumanni sem hefur sinnt starfi sínu af trúmennsku og samviskusemi og hefur honum staðið til boða starf vaktstjóra við Íþróttamiðstöðina. Markmiðið með breytingunni er einföldun á stjórnskipulagi sem þegar hafði sýnt sig að skilaði aukinni skilvirkni.
Því miður verður blaðamanni DV á að rangtúlka staðreyndir málsins í frétt blaðsins þann 12. september. Fullyrt er að forstöðumanninum hafi verið sagt upp og þrír starfsmenn ráðnir í hans stað. Slíkt er alger firra. Fréttamaður sá ekki ástæðu til að leita upplýsinga hjá Borgarbyggð um málið en setur þess í stað saman frétt af málinu í órökstuddum æsifréttastíl.
Borgarnesi 13. september 2000
Stefán Kalmansson bæjarstjóri Borgarbyggðar


Share: