Sumarsýningin okkar Hennar voru spor rennur brátt sitt skeið og er lokadagur hennar föstudagurinn 19. ágúst n.k.
Á sýningunni gefur að líta muni úr safnkosti Byggðarsafnsins er snúa að handverki með megin áherslu á útsaum og textíl. Hugmyndin með sýningunni er að setja fram fallega og vandaða muni og um leið varpa ljósi á sögu handverksfólks héraðsins sem stendur að baki verkunum.
Sýningarstjóri er Katrín Jóhannesdóttir, textílkennari við Hússtjórnarskólann í Reykjavík.
Af þessu tilefni verður Katrín á staðnum milli kl. 17.00 og 18.00 og segir frá sýningunni og verkum hennar. Vinningshafi í útsaumsmiðagetrauninni verður opinberaður, en í verðlaun er útsaumssett frá Ömmu mús handavinnuhúsi.
Borgarbyggð hvetur sem flesta til að koma við og njóta þessarar fallegu sýningar í Safnahúsinu og þiggja léttar veitingar á lokadegi sýningarinnar.