Sex mánaða milliuppgjör

september 10, 2019

Sex mánaða milliuppgjör fyrir Borgarbyggð var lagt fram á fundi byggðarráðs þann 5. september sl. Haraldur Örn Reynisson endurskoðandi hjá KPMG kom til fundarins og skýrði út uppgjörið. Niðurstaða milliuppgjörsins er 46 milljónum betri hjá samstæðu (A og B hluta) heldur en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Tekjur samstæðu fyrstu sex mánuði ársins voru voru 1.976.- m.kr. en gert hafði verið 2.030.- m.kr. í fjárhagsáætlun. Rekstrargjöld voru 1.845.- m.kr. fyrstu sex mánuði ársins en gert hafði verið ráð fyrir 1.933.- m.kr. í fjárhagsáætlun. Á fyrstu sex mánuðunum var framkvæmt fyrir 321.- m.kr. sem er lægri fjárhæð en gert hafði verið ráð fyrir þar sem það dróst að hefja framkvæmdir lengur fram eftir árinu en ætlað var.  Góð afkoma sveitarfélagsins gerir það að verkum að auðveldara er að takast á við þær miklu framkvæmdir sem sveitarfélagið stendur í þessi misserin. Þær eru viðhald og viðbygging Grunnskólans í Borgarnesi, nýbygging leikskólans Hnoðrabóls í Reykholtsdal, viðhald grunnskólans á Kleppjárnsreykjum og lagning ljósleiðara um dreifðar byggðir Borgarbyggðar. Handbært fé í lok tímabilsins hjá samstæðunni var 794.- m.kr. Þrátt fyrir miklar framkvæmdir eru því líkur á að lántaka verði mun minni á árinu en reiknað var með í fjárhagsáætlun fyrir árið 2019. Við heildarstjórnun á fjármálum sveitarfélagsins er unnið eftir verkefninu „Brúin til framtíðar“ eins og gert hefur verið frá árinu 2014.


Share: