Sauðamessa 2009 – fréttatilkynning

október 13, 2009
Borgfirðingar ætla að verða við kröfu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og leggja fram fjárskuldbindingar í formi lausafjár sem rekið verður eftir götum Borgarness n.k. laugardag þann 17. október. Messugjörð hefst formlega með fjárrekstri frá Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi kl. 13.30 að staðartíma. Viljum við biðja íbúa og gesti um aðstoð við að verja heimalönd íbúa við Borgarbraut, Þorsteinsgötu og Skallagrímsgötu en það er sú leið sem farin verður með fjárreksturinn þetta árið. Í og við Skallagrímsgarð verður síðan hátíðardagskrá fram eftir degi.
Í Skallagrímsgarði verður ærlegt markaðstorg og á sviði verður stanslaus dagskrá milli kl. 14.02 og 16.03. Meðal annarra Bakkabræður og Bakkasystur, fegurðasamkeppni MÝRAHRÚTA, Siggi Óli og Bankaæringjarnir, hið árlega lærakappát þar sem Baldur Jóns á margfaldan tiltil að verja, Eva Margrét og Katarína, dansandi sveitastrákar ofl, ofl.
Ýmis konar afþreying í boði í garðinum á meðan á dagskrá stendur. Öllum gestum verður boðið upp á ókeypis kjötsúpu í boði sauðfjárbænda í héraði sem Raftar, einnig úr héraði, sjá um að framreiða við Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Auglýsingu má sjá hér
 
FRÍAR SÆTAFERÐIR ÚR BORGARNESI Á RÉTTARBALL
Athygli heimsbyggðarinnar, og þó Borgarbyggðarinnar sérstaklega, er vakin á því að í tengslum við ball ársins, þar sem hljómsveitin Festival með trymbilinn síkáta Sigurþór Kristjánsson í fararbroddi mun fara hamförum á RÉTTARBALLI í nýju REIÐHÖLLINNI í Borgarnesi. Að kveldi SAUÐAMESSU verður boðið upp á ÓKEYPIS sætaferðir með SÆMUNDI úr BORGARNESI og aftur til baka að balli loknu.
Fyrsta ferð úr Borgarnesi fer kl. 22:30 frá DÚSSABAR, stoppað verður á gatnamótum Borgarbrautar og Böðvarsgötu, á móts við Hyrnuna og við strætóskýlin á leið út úr bænum. Ferðir verða kl. 22:30, 23:00 og 23:30. Heimakstur hefst frá Réttarballi kl. 01:30 og stendur til 02:30 eða eins og þörf krefur.
Nýtið ykkur topp þjónustu á engu verði í kreppunni!!!!
Athugið að RÉTTARBALL hefst kl. 22:00 stundvíslega og stendur það til kl. 02:00. Aldurslágmark er 16 ár. – AldursHÁMARK er EKKERT.
Aðgangseyrir: 2500,-
ATHUGIÐ ENNFREMUR AÐ SNYRTILEGUR KLÆÐNAÐUR ER BANNAÐUR
LJÚKUM SAUÐAMESSU MEÐ STÆL Á RÉTTARBALLI!
SAUÐIRNIR
Samstarfsaðilar Sauðamessu: Nýi Kaupþingbanki, Félag sauðfjárbænda í Borgarfjarðarhéraði, Markaðsráð Kindakjöts, Sæmundur Sigmundsson, Leikdeild Skallagríms, Skátafélag Borgarness, kindur.is; Nýverk, HS Verktak, Einar Páll Pétursson flutningar, Nepal, Björgunarsveitin Brák, Guðmundur Hallgrímsson, Raftar, Búnaðarfélag Mýramanna, Borgarbyggð, Menntaskóli Borgarfjarðar og margir margir fleiri vinir og vandamenn Sauðamessu – takk fyrir hjálp og stuðning !
 

Share: