Samtímalist – fyrirlestur í Safnahúsi

ágúst 6, 2019
Featured image for “Samtímalist – fyrirlestur í Safnahúsi”

Næstkomandi fimmtudag, 8. ágúst flytur Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir fyrirlestur í Safnahúsinu. Efni hans er samtímalist og heiti erindisins er Hvað er samtímalist og hvers vegna er svona erfitt að skilja hana?


 


Fyrirlesturinn hefst kl. 19.30 og er upptaktur að Plan-B Art Festival sem fer fram dagana 9. -11. ágúst í Borgarnesi. Er einkar ánægjulegt að Plan-B hátíðin skuli tengjast Safnahúsinu með þessum hætti.


 


Inga Björk er úr Borgarnesi. Hún er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri og leggur nú lokahönd á meistaragráðu í listfræði frá Háskóla Íslands. Í fyrirlestrinum fer hún á léttum nótum yfir hvað samtímalist er og hvers vegna erfitt getur reynst að skilja hana.


 


Listahátíðin Plan-B hefur verið haldin ár hvert í Borgarnesi frá árinu 2016 og er Inga Björk einn stofnenda hennar. Hátíðin hefur vakið mikla athygli og m.a. komist á Eyrarrósarlistann, en þar eru verðlaunuð framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.


 


Fyrirlesturinn tekur um klukkutíma og að honum loknum verður óformlegt spjall og heitt á könnunni.  Verkefnið er stutt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands og tengist fagsviði Listasafns Borgarness sem er eitt safnanna í Safnahúsi.


 


Mynd: Gunnhildur Lind Hansdóttir


Share: