Þróunarverkefnið „Saman getum við meira“ fer vel af stað. Kennarar grunnskóla Borgarbyggðar taka þátt í verkefninu sem styrkt er af Sprotasjóði og Endurmenntunarsjóði grunnskóla. Verkefnið hófst veturinn 2016-2017 og beinist að teymiskennslu og sóknarfærum í læsis-, stærðfræði- og náttúrufræðikennslu með það að markmiði að bæta kennslu og árangur nemenda. Einnig að auka fjölbreyttni í kennsluháttum.
Verkefnastjóri er Dr. Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Endurmenntunardagar voru haldnir að Varmalandi 10. og 11. ágúst sl. og var þátttaka kennara góð. Fyrirlestra héldu Ingvar Sigurgeirsson prófessor og Hafþór Guðjónsson dósent ásamt Ragnari Þór Péturssyni kennara í Norðlingaskóla. Einnig voru haldnar smiðjur þar sem Ásta Björk Björnsdóttir kennsluráðgjafi kynnti lestrarstefnu Borgarbyggðar og eftirfylgni með henni. Agnes Guðmundsdóttir og Íris Grönfeldt vörpuðu fram hugmyndum um hvernig hægt er að tengja íþróttakennslu, lestur, stærðfræði og náttúrufræði saman. Laufey Einarsdóttir og Nanna Möller kennarar héldu stærðfræðismiðju ásamt Kristínu Ragnarsdóttir. Að auki hélt Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir náttúrufræðismiðju og Ingvar Sigurgeirsson smiðju fyrir list- og verkgreinakennara þar sem hugmyndir um hvað þeir geta lagt af mörkum til að efla læsi voru ræddar.
Hugmyndafræði lærdómssamfélagsins er lögð til grundvallar í þróunarverkefninu en þar er gert ráð fyrir að fólk deili hugmyndum, reynslu og þekkingu sem styður við starfsþróun kennara með árangur og vellíðan nemenda að leiðarljósi.