Slökkvilið Borgarbyggðar hélt samæfingu allra stöðva slökkviliðsins í og við Andakílsárvirkjun í samvinnu við ON Orku Náttúrunnar laugardaginn 21. september síðastliðinn.
Starfsmenn ON tóku á móti slökkviliðsmönnum upp úr klukkan 9:00 um morguninn við húsnæði virkjunarinnar. Þar fengu slökkviliðsmenn stutta lýsingu á starfseminni. Því næst var farið í vatnsöflun og dælingar, körfubíllinn reistur og mátaður við stöðvarhúsið og vatni sprautað úr vatnsbyssu í körfu hans. Auk þess var æfð reykköfun og björgun úr lagnakjallara virkjunarinnar. Þá voru fjarskipti VHF og Tetra reynd inni í stöðvarhúsi og utan þess, með tilliti til mikils segulsviðs aflvéla virkjunarinnar.
Að lokum var farið í skoðunarferð undir leiðsögn ON að lóni-og inntaksmannvirkjum ofan við stöðvarhús og síðan skoðuð loku-og rennslismannvirki uppi við Skorradalsvatn.
Æfingunni lauk síðan með rýnifundi slökkviliðs og starfsmanna ON.
Við þökkum starfsmönnum ON fyrir æfinguna og vonandi er þetta upphafið að góðu samstarfi og samvinnu okkar á milli.