Sýning Safnahúss um byggingu Hvítárbrúarinnar 1928 verður einn dagskrárliða á Evrópsku ári menningararfs (European Year of Cultural Heritage 2018). Verður sýningin opnuð 1. nóvember og er unnin í samvinnu við Helga Bjarnason blaðamann og Vegagerð ríkisins. Það er Minjastofnun Íslands sem velur viðburði á dagskrá menningarársins og lagt er til grundvallar að Hvítárbrúin var á sínum tíma mikil samgöngubót og þáttur í breyttu ferðamunstri landans, þ.e. breytingunni sem átti sér stað þegar fólk hætti að ferðast mest á sjó og fór að ferðast meira á landi. Hvítárbrúin opnaði á sínum tíma dyr innan héraðs og hafði mikil áhrif á atvinnulíf og félagslíf héraðsbúa.
Þess má geta að sýningin verður helguð minningu Þorkels Fjeldsted í Ferjukoti (1947-2014) sem var í senn þekkingarbrunnur og mikill áhugamaður um sögu brúarinnar og miðlun fróðleiks um hana.
Það er Evrópuráðið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem hefur útnefnt árið 2018 sem „Menningararfsár Evrópu.“ Þá fer fram fjöldi viðburða sem leggja áherslu á evrópsk tengsl og sameiginlegan menningararf. Meginþemað er gildi menningararfsins fyrir einstaklinga og samfélög og á Íslandi hefur verið ákveðið að leggja sérstaka áherslu á strandmenningu.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, setti Menningararfsárið formlega í Þjóðminjasafninu fyrir stuttu. Við það tækifæri sagði hún m.a.: „Það er mikilvægt verkefni að rannsaka menningararf okkar, en ekki síðra verkefni að varðveita hann fyrir komandi kynslóðir og varðveita heimildir um hann og minjar. Og loks þarf að miðla upplýsingum um menningararfinn, um rannsóknir á honum og um varðveislu hans fyrir komandi kynslóðir. Miðlunin er forsenda þess að hægt sé að skapa skilning á gildi menningararfsins og afla aukins fjár til að sinna verkefnum, og því skiptir miklu máli hvernig til tekst á þessu sviði.“
Ljósmynd (Guðrún Jónsdóttir): Fornrúta Sæmundar Sigmundssonar ekur yfir Hvítárbrúna á 80 ára afmæli hennar árið 2008.