Ronja ræningjadóttir í Tónlistarskóla Borgarfjarðar

desember 9, 2021
Featured image for “Ronja ræningjadóttir í Tónlistarskóla Borgarfjarðar”

Nú í desember sýnir Söngleikjadeild Tónlistarskóla Borgarfjarðar söngleik um Ronju ræningjadóttur. Sagan er eftir Astrid Lindgren og tónlistin í sýningunni er meðal annars eftir þá Sebastian, Ostergren og Venge. Þýðing texta er eftir Þorleif Hauksson og hefur Sigríður Ásta Olgeirsdóttir sett leikgerðina saman fyrir söngleikjadeildina og jafnframt leikstýrir söngleiknum.

Theodóra Þorsteinsdóttir söngkennari er tónlistarstjóri og leikur Jónína Erna Arnardóttir með á píanó í sýningunni. Nemendur söngleikjadeildar eru 16 í haust og á aldrinum 7-14 ára. „Það hefur verið mikið fjör á æfingunum og börnin að standa sig sérlega vel. Það er greinilegt að sjá og heyra framfarir hjá nemendunum og áhuginn er mikill, en þetta er fjórða árið sem skólinn hefur haft söngleikjasýningar reglulega“ segja þær Sigríður Ásta og Theodóra.

Stefnt er að fjórum sýningum í Tónlistarskólanum, Borgarbraut 23 í Borgarnesi, föstudaginn 10. desember kl. 17:00 og 18:30 og laugardaginn 11. desember kl. 13:00 og 14:30. Hægt er að panta miða á sýninguna hjá skólastjóra í tölvupósti á tonlistarskoli@borgarbyggd.is

Vegna sóttvarna þarf að takmarka fjölda gesta á hverri sýningu og það þarf að skrá alla gesti, kennitala og símanúmer þurfa að að fylgja miðapöntuninni. Einnig er grímuskylda á viðburðinum.


Share: