Ríkið græðir á göngunum

febrúar 26, 2002

Tilkoma Hvalfjarðarganga var mikið framfaraspor í samgöngumálum fyrir Vestlendinga og reyndar flesta landsmenn. Það merkilega við þá framkvæmd var að þar tóku framsýnir einkaaðilar sig saman þar sem fyrirséð var að samgönguyfirvöld treystu sér ekki til að hrinda verkefninu í framkvæmd þrátt fyrir augljósa þjóðhagslega hagkvæmni.

Vaxandi þungi hefur verið í þeirri umræðu á Vesturlandi að það sé óeðlilegt að Vestlendingar og aðrir sem nota mikið Hvalfjarðargöng skuli einir landsmanna borga með vegtollum slíkt umferðarmannvirki. Fram hefur komið í fjölmiðlum að samgönguráðherra vilji láta endurskoða stöðu og rekstur Hvalfjarðarganganna í tengslum við afgreiðslu samgönguáætlunar næsta haust. Ástæða er til að fagna því og hvetja til endurmats á núverandi fyrirkomulagi.
Í tengslum við umfjöllun af þessu máli hefur komið fram að Hvalfjarðargöngin færi ríkinu um 100 mkr á ári í virðisaukaskatt. Auk þess fela Hvalfjarðargöngin í sér milljóna sparnað á ári fyrir Vegagerðina í viðhaldi og snjómokstri vegar um Hvalfjörð, fyrir utan þjóðhagslegan ávinning af styttingu leiðarinnar. Það segir sig sjálft að það er óásættanleg staða fyrir Vestlendinga og aðra sem nota Hvalfjarðargöngin í einhverjum mæli að ríkisvaldið sé beinlínis að hagnast á gerð slíkra mannvirkja.
Nú er í umræðunni tillaga að byggðaáætlun 2002 – 2005. Þar er að finna ýmsar hugmyndir sem eru góðra gjalda verðar. Ég held það megi þó fullyrða að góðar samgöngur standi hvað fremst varðandi ávinning af aðgerðum stjórnvalda til að bæta búsetuskilyrði utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig er hægt að fullyrða að niðurfelling eða a.m.k. veruleg lækkun vegtolla um Hvalfjarðagöngin mundi skipta verulegu máli til að bæta búsetuskilyrði á Vesturlandi, sem mundi jafnframt koma til góða fyrir þann stóra hluta þjóðarinnar sem um göngin fara. Slíka tillögu er þó ekki að finna í nýrri byggðaáætlun en ég held að hún ætti fullan rétt á sér.
Stefán Kalmansson
bæjarstjóri


Share: