Rekstur Borgarbyggðar gekk vel á árinu 2005

mars 21, 2006
Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2005 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Borgarbyggðar fimmtudaginn 9. mars s.l. Síðari umræða um reikninginn fer fram í bæjarstjórn fimmtudaginn 6. apríl n.k. Í samræmi við reikningsskil sveitarfélaga er starfseminni skipt upp í tvo hluta, annars vegar A-hluta og hins vegar B-hluta. Til A-hluta telst sú starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum og til B-hluta teljast rekstrareiningar s.s. félagslegar íbúðir, veitur, gámastöð og fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem sjálfstæðar einingar fyrir eigin tekjur.
 
Rekstur Borgarbyggðar gekk vel á árinu 2005 og var niðurstaða mun betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar var jákvæð um 4,8 milljónir, en áætlun hafði gert ráð fyrir halla upp á 10,6 milljónir. Auknar tekjur og lægri fjármagnsgjöld eru megin skýringin á betri afkomu en áætlun gerði ráð fyrir. Veltufé frá rekstri var 95,1 milljón eða um 8% af tekjum. Þessi niðurstaða er ríflega 30 milljónum betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og hefur veltufé frá rekstri hækkað jafnt og þétt á kjörtímabilinu, en það var 1.9% af tekjum á árinu 2002. Fjárfestingahreyfingar námu samtals 39,9 milljónum. Ný langtímalána voru tekin fyrir 200 milljónir, en afborganir eldri lána voru 183.1 milljón. Skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa eru því 601 þúsund í árslok. Mikil hækkun varð á handbæru fé eða 147,9 milljónir og var handbært fé í árslok 178,8 milljónir.
Samkvæmt efnahagsreikningi eru eignir Borgarbyggðar 1.995 milljónir og bókfært eigið fé er 366 milljónir í árslok 2005.
 

Share: