Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2019 var kynntur á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 2. apríl og lagður fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar 8. apríl s.l. Ársreikningurinn var samþykktur við seinni umræðu í sveitarstjórn 14. maí s.l.
Skemmst er frá því að segja að rekstrarniðurstaða samstæðunnar A+B hluta er jákvæð um 429 milljónir kr., sem er um 311 milljónum kr. betri niðurstaða en fjárhagáætlun gerði ráð fyrir. Þetta er ánægjuleg niðurstaða og gefur sveitarfélaginu rýmra svigrúm til þess að bregðast við efnahagsástandinu vegna Covid-19
Þessi jákvæða niðurstöðu má rekja til þess að útsvarstekjur voru hærri en reiknað var með. Auk þess var almennur rekstrarkostnaður og reiknuð lífeyrisskuldbinding lægri og vaxtakostnaður minni en áætlun gerði ráð fyrir.
Sterkt eiginfjárhlutfall
Tekjur ársins voru samtals um 4.457 milljónir kr. Laun og launatengd gjöld námu 2.340 milljónum kr. og annar rekstrarkostnaður 1.445 milljónum kr. Framlegð ársins nemur 613 milljónum kr. og veltufé frá rekstri eru 640 milljónir kr. sem er um 14,4% af tekjum. Eigið fé í árslok nam 4.284 milljónum kr. og er eiginfjárhlutfallið því samtals 50,4%.
Rekstur flestra málaflokka var í samræmi við áætlun á árinu. Líkt og undanfarin ár var mestum fjármunum varið í fræðslu- og uppeldismál. Til þess málaflokks var varið um 52% af tekjum sveitarfélagsins. Aðrir stórir málaflokkar eru félagsþjónusta, æskulýðs- og íþróttamál og sameiginlegur kostnaður.
Engin ný lán tekin árið 2019
Skuldaviðmið sveitarfélagsins er 48% og skuldahlutfall 94,8% en það er hlutfall skulda og skuldbindinga af heildartekjum sveitarfélagsins. Skuldahlutfallið hefur lækkað talsvert á undanförnum árum en þess má geta að samkvæmt lögum má það ekki vera meira en 150%.
Vegna sterkrar lausafjárstöðu þurfti ekki að taka ný lán á árinu 2019 en afborganir lána voru 248 milljónir kr.
Framkvæmdarár
Á árinu 2019 var framkvæmdakostnaður og fjárfestingar sveitarfélagsins 872 milljónir kr. en farið var í nauðsynlegar framkvæmdir á árinu. Má þar helst nefna stækkun Grunnskólans í Borgarnesi, bygging leikskóla að Kleppjárnsreykjum og lagning ljóðsleiðara í dreifbýli
Fjölgun íbúa
Það er ánægjulegt að segja frá því að fimmta árið í röð varð fjölgun á íbúum í sveitarfélaginu en í árslok 2019 voru íbúar Borgarbyggðar 3.855 og fjölgaði þeim um 39 á árinu.